Siðareglur
Siðareglur
Kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn, nefndum og ráðum á vegum Kaldrananeshrepps
1. gr.
Markmið þessara reglna er að skilgreina og leiðbeina kjörnum fulltrúum um það hátterni og viðmót sem ætlast er til að þeir sýni af sér við störf sín í þágu Kaldrananeshrepps.
Siðareglurnar ná til allra kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa og annarra sem sitja í nefndum, ráðum og starfshópum sem og varamanna þeirra (hér eftir nefndir einu nafni kjörnir fulltrúar).
2. gr.
Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglum og samþykktum Kaldrananeshrepps, sem og sannfæringu sinni. Þeim ber að gæta almannahagsmuna og hagsmuna sveitarfélagsins og hafa í heiðri grundvallaratriði góðrar stjórnsýslu og að við ákvarðanatöku ráði málefnaleg og lögmæt sjónarmið.
3.gr
Kjörnum fulltrúum ber að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi, fyrir opnum tjöldum og vera reiðubúnir að axla ábyrgð á ákvörðunum sínum og rökstyðja þær. Kjörnir fulltrúar upplýsa eins og kostur er íbúa Kaldrananeshrepps um störf sín og annað sem skiptir máli í rekstri sveitarfélagsins.
4.gr
Kjörnir fulltrúar gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Kaldrananeshrepps.
Kjörnir fulltrúar sýna störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Kaldrananeshrepps virðingu. Þeir koma fram af háttvísi og sýna hver öðrum, íbúum, viðskiptavinum og starfsmönnum sveitarfélagsins fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.
5.gr
Kjörnum fulltrúum ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á almannafé.
6.gr
Kjörnir fulltrúar nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem þeim eru tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t eftir að störfum fyrir Kaldrananeshrepps lýkur. Kjörnir fulltrúar forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum.
Um hæfi þeirra við meðferð einstakra mála fer eftir 20 .gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og samþykktum Kaldrananeshrepps.
7. gr.
Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir frá íbúum og viðskiptavinum Kaldrananeshrepps, eða þeim sem leita eftir verkefnum eða þjónustu sveitarfélagsins, þannig að túlka megi sem persónulega þóknun fyrir ákvarðanir á vegum sveitarstjórnar eða nefnda.
8. gr.
Kjörnir fulltrúar gæta þagmælsku og trúnaðar um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Trúnaðarskylda helst þótt látið sé af starfi. Kjörnum fulltrúum ber jafnframt að virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum í nefndum Kaldrananeshrepps.
9. gr.
Kjörnum fulltrúum ber að koma í veg fyrir að einstaklingum sé veitt starf eða stöðuhækkun hjá sveitarfélaginu á öðrum forsendum en hæfni til að rækja starfið og gæta þess, þegar þeir koma sjálfir að ákvörðun um val á starfsmönnum, að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið.
10. gr.
Kjörnir fulltrúar undirgangast þessar siðareglur með undirskrift sinni og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi. Siðareglurnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki sveitarfélagsins, almenningi á heimasíðu sveitarfélagsins og annan þann hátt sem sveitarstjórn ákveður til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.
11.
Siðareglur þessar skulu teknar til umræðu í sveitarstjórn Kaldrananeshrepps í upphafi hvers kjörtímabils til kynningar og endurskoðunar ef þörf þykir. Þær skulu síðan kynntar kjörnum fulltrúum í nefndum og ráðum.
Þannig samþykkt á fundi sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps þann 29. maí 2022