Hitaveita Drangsness
Hitaveita Drangsness er sjálfstætt fyrirtæki, sem Kaldrananeshreppur á og starfrækir. Tilgangur hitaveitunnar er að afla, selja og veita heitu vatni um orkuveitusvæði sitt og reka aðra þá starfsemi sem því tengist.
Tuttugu holur eru á Drangsnesi og ein í notkun, sex holur eru á Laugarhóli og ein í notkun á Klúku en svo eru holur á Svanshóli, Bakka, Kaldbak, Kaldrananesi, Ásmundarnesi, í Goðdal og Hveravík. Hús eru hituð á þessum stöðum með heitavatni, einnig eru tvær sundlaugar á þessum stöðum en þær eru Gvendarlaug hins góða og Sundlaug Drangsness.
Árið 1997 fannst heitt vatn á Drangsnesi sem hefur haft mjög jákvæð áhrif á byggð á svæðinu. Holur sem boraðar hafa verið eru tuttugu talsins með staðarheitin DN-01 til DN-20 og voru boraðar í fjórum áföngum árin 1996, 1997, 1998 og loks 2011.
Saga Hitaveitu Drangsness byrjar í ársbyrjun 1996 en það varð vatnslítið í frystihúsinu þar sem fraus í Bæjarvatna-leiðslunni, ákveðið var því að bora eftir köldu vatni nærri frystihúsinu. Þá var hola DN-01 boruð sem staðsett er fyrir ofan frystihúsið á Aðalbraut 30 og kom í ljós að hitastigull var mun hærri en gera mátti ráð fyrir. Ekki fékkst kalt vatn úr holunni og því var önnur hola boruð utarlega við bryggjuna og tók hún inn sjó.
Árið 1997 var þessari óvæntu niðurstöðu úr holu DN-01 fylgt eftir með hitasigulsborun og í framhaldinu á því voru boraðar fjórtán holur til viðbótar þar sem hola númer DN-16 gaf nóg vatn fyrir hitaveitu á staðnum. Að því loknu voru boraðar tvær kaldavatnsholur.
Hola númer DN-07 var boruð fyrst í 54 metra en dýpkuð strax í 134 metra. Holan gaf um 10 l/s af 60°C heitu vatni og var tengd þá um haustið 1997 við Grunnskólann á Drangsnesi og frystihúsið. Allt þorpið var síðan tengt árið 1998. Hola DN-07 var notuð fram í ársbyrjun 2002 en þá var hola númer DN-16 tengd við veituna og var hiti á holutoppi í byrjun 62°C. Síðustu tvær holurnar númer DN-19 og DN-20 voru boraðar í febrúar 2011 og um 12 metrar eru á milli þeirra. Hola númer 19 er 24 metra djúp og gefur heitt vatn en hola númer 20 er 20 metra djúp og gefur kalt vatn. Líklegt er talið að holan DN-19 getur gefið umtalsverða orku eða allt að 90° hita.
Heildardýpi borholanna á Drangsnesi er um 1305 metrar.
Borun eftir heitu vatni við Klúku í Bjarnarfirði lauk í nóvember 2008 og var árangur mjög góður. Borholan, sem er kölluð KL-6, er 313 metra djúp og gefur um 16 l/sek af tæplega 49°C heitu vatni í fríu rennsli, en um 25 l/sek með 10 metra niðurdrætti. Að boruninni stóð Hitaveita Drangsness með tilstyrk Orkusjóðs.