Sveitarstjórnarfundur 6. ágúst 2014
- Details
- Miðvikudagur, 06 ágúst 2014 21:00
Miðvikudaginn 6. ágúst 2014 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 3. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson oddviti, Jenný Jensdóttir, Ingólfur Árni Haraldsson og Margrét Bjarnadóttir og Hilmar Hermannson sem mæta vegna fjarveru Guðbrandar Sverrissonar og Magnúsar Ásbjörnssonar.
Oddviti setti fund kl 20.00 og stýrði honum.
Oddviti leitar afbrigða frá boðaðri dagskrá að fella út dagskrárlið númer 3 þar sem þetta er ekki í okkar verkahring lengur. Þá leitar hann afbrigða að tekin verði á dagskrá sem 9. liður bréf Umhverfisráðuneytis vegna refaveiða ásamt samningsdrögum vegna endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna refaveiða. Þá leitar oddviti einnig eftir afbrigði frá boðaðri dagskrá að taka fyrir sem lið nr. 10 á dagskrá bréf frá Heilbrigðisfulltrúa Vestfjarða dags. 6.8.2014 og sem 1l. lið á dagskrá að leita eftir óháðri ástandsskoðun á fasteignum sveitarfélagsins. Afbrigði borin upp og samþykkt.
Fundargerð ritar Jenný Jensdóttir á tölvu.
Dagskrá:
1. Fundagerðir sveitastjórnar Kaldrananeshrepps frá 8. júlí 2014.
2. Ræða fyrirkomulag brunavarnamála
3. Erindi vegna leikskóla.
4. Erindi vegna grunnskólans
5. Erindi vegna sundlaugar á Drangsnesi
6. Taka fyrir Aðalskipulag
7. Kynningarbréf frá Vegagerðinni um framkvæmdir í landi Skarðs
8. Fundargerðir nefnda
9. Bréf frá Umhverfisráðuneyti vegna refaveiða
10. Bréf frá Heilbrigðisfulltrúa Vestfjarða
11. Ástandsskoðun á fasteignum sveitarfélagsins
Var þá gengið til dagskrár.
1. Fundagerðir sveitastjórnar Kaldrananeshrepps frá 8. júlí 2014.
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi sveitarstjórnar.
Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.
2. Ræða fyrirkomulag brunavarnamála
Oddviti gerði grein fyrir fundi með fulltrúa frá Mannvirkjastofnun vegna fyrirkomulags brunamála í sveitarfélaginu. Þar var m.a rætt um hvort skoða ætti að koma á fót sameiginlegu brunavarnasamlagi með einum slökkviliðsstjóra í ca 50% starfi. Þetta kostar sveitarfélögin helst til mikið. Það sem helst vantar hér er samþykkt brunavarnaáætlun fyrir sveitarfélagið, slökkviliðsstjóri og eldvarnareftirlit. Mikil nauðsyn er á æfingu og fræðslu fyrir slökkviliðsmenn. Skoða brunamálaskóla síðar í haust. Sveitarstjórn samþykkir að leita tilboða í eldvarnarúttekt. Framlagður listi um fyrirtæki sem skal skoða samþykktur samhljóða.
3. Erindi vegna leikskóla.
Foreldrar barna í leikskólanum á Drangsnesi óska eftir upplýsingum um hvenær dagvistin opnar eftir sumarfrí og óska eindregið eftir því að dagvistin opni eftir sumarfrí sem næst 1. ágúst. Starfsfólk dagvistunar á Drangsnesi er ekki væntanlegt til vinnu fyrr en í fyrsta lagi í kringum 20 ágúst og svo 1. september. Auglýst hefur verið eftir afleysingafólki og er í dag búið að ráða Freyju Óskarsdóttur í afleysingar þar til Pat mætir til starfa. Sveitarstjórn óskar eftir að fræðslunefnd og starfsmenn dagvistar komi sér saman um að ákveða árlegan starfstíma dagvistar.
4. Erindi vegna grunnskólans
Lagður fram listi frá skólastjóra vegna viðhalds skólahúsnæðis og leiksvæðis ásamt lista vegna tækjakaupa fyrir skólann. Oddvita falið að forgangsraða á listanum í samráði við skólastjóra.
5. Erindi vegna sundlaugar á Drangsnesi
Lagður fram listi yfir það sem vantar eða þarf að laga við sundlaug og potta. Oddvita falið að forgangsraða á listanum í samráði við forstöðumann sundlaugar.
6. Taka fyrir Aðalskipulag.
Greinargerð aðalskipulags ásamt uppdrætti lögð fram til kynningar og skoðunar fyrir nýja sveitarstjórn. Aðalskipulag var tekið fyrir til skoðunar og ekki talin þörf á breytingu að svo stöddu.
7. Kynningarbréf frá Vegagerðinni um framkvæmdir í landi Skarðs
Oddviti gerði grein fyrir kynningarfundi sem Vegagerðin hélt með landeigendum þeirra jarða sem fyrirhuguð framkvæmd á Strandavegi um Bjarnarfjarðarháls og Bjarnarfjörð liggur um. Uppdráttur af fyrirhugaðri veglínu og vegsvæði í landi Skarðs lögð fram. Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir að mótmæla því harðlega að hafa einbreiða brú á Bjarnarfjarðará og telur það ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru vegna umferðaröryggis. Tvíbreið brú á Bjarnarfjarðará er ófrávíkjanleg krafa. Þá óskar sveitarstjórn eftir því að vegtengingar við alla vegi á Skarði verði tryggðar. Sveitarstjórn telur það ekki vera hluta af bótum vegna lands, sem fer undir veg að fá eldra vegstæði til baka.
8. Fundargerðir nefnda
a.Fundargerð Hafnarnefndar frá 5.ágúst 2014. Fundargerðin er í 4 liðum. Fyrsti liður fundargerðarinnar er vegna fjárveitingar á samgönguáætlun til endurbyggingar austurenda harðviðarbryggju í Kokkálsvík. Áætlun gerir ráð fyrir 22 milljóna kostnaði á verkið sem er með 90% ríkistyrk. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fara í þessa framkvæmd. Liðir 2 og 3 eru afgreiddir athugasemdalaust. Vegna liðar nr. 4 samþykkir sveitarstjórn að fela oddvita að fara í þetta mál.
b.Fundargerð Byggingar,-Skipulags og Umhverfisnefndar frá 10.7.2014. Fundargerðin er í 7 liðum. Liðir eitt til fimm afgreiddir athugasemdalaust. Varðandi lið nr. 6 deiliskipulag á Drangsnesi samþykkir sveitarstjórn að setja þessar breytingar inn á deiliskipulagsdrögin. Varðandi lið nr. 7 þar sem nefndin óskar eftir að ráðinn verði nýr byggingarfulltrúi samþykkir sveitarstjórn að taka málið til skoðunar.
9. Bréf frá Umhverfisráðuneyti vegna refaveiða
Umhverfisráðuneyti hefur ákveðið að Kaldrananeshreppur fái endurgreitt 30% af útlögðum kostnaði vegna refaveiða í sveitarfélaginu þó ekki meira en 270.000.- fyrir árið 2014. Oddvita falið að ganga frá samningum við ráðuneytið.
10. Bréf frá Heilbrigðisfulltrúa Vestfjarða
Heilbrigðisfulltrúi Vestfjarða óskar eftir að þau sveitarfélög sem ekki hafa samþykkt við tvær umræður „Samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss „taki samþykktina fyrir og samþykki. Þessi samþykkt var afgreidd á tveim fundum sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps þann 13. maí 2004 og samþykkt eftir síðari umræðu þann 27. maí 2004. Sveitarstjórn tók erindið fyrir og samþykkir samþykktina og telur þá að hún sé endanlega afgreidd frá sveitarstjórn.
11. Ástandsskoðun fasteigna sveitarfélagsins. Oddvita veitt heimild til að fá fagaðila til að gera ástandsskoðun á fasteignum sveitarfélgsins.
Fleira ekki fyrir tekið
Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl.01.10