Sveitarstjórnarfundur 12.desember 2011

Miðvikudaginn 12.desember 2011 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 17. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Óskar Torfason, Magnús Ásbjörnsson, Guðbrandur Sverrisson og Sunna Einarsdóttir.

Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá í 15 liðum.Oddvit leitar afbrigða til að taka sem 16. mál á dagskrá fundargerð Velferðarnefndar frá 30. nóv s.l Afbrigði samþykkt

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu
Dagskrá
1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 9. nóv s.l
2. Fundargerðir nefnda
3. Tekjustofnar 2012
4. Gjaldskrá Hitaveitu 2012
5. Gjaldskrá fyrir sorphirðu 2012
6. Fjárhagsáætlun 2012 fyrri umræða
7. Fundargerð Sorpsamlags og fjárhagsáætlun 2012
8. Bréf frá hótelhöldurum Laugarhóli
9. Byggðasafnið Reykjum
10. Hitaveitumál
11. Bréf frá Heilbrigðiseftirliti
12. Fundargerð Heilbrigðiseftirlits
13. Fundur með stjórn Hve
14. Deiliskipulag Svanshóli
15. Bsvest –kostnaðargreining og jöfnun kostnaðar 2012

Var þá gengið til dagskrár.

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 9. nóv s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi. Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.

2. Fundargerðir nefnda
Fundargerð skólanefndar frá 16. nóv 2011. Fundargerðin er í 3. liðum og varðandi lið 3.þar sem fjallað er um ráðningu afleysingakennara við skólann saknar sveitarstjórn þess að ekki sé þess getið hverjir sóttu um né heldur með hverjum var mælt.

3. Tekjustofnar 2012
Oddviti leggur fram eftirfarandi tillögu um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins fyrir árið 2012.
1.Útsvar: 14,48%
2.Fasteignaskattur:
b. Íbúðarhús, 0,5% af fasteignamati.
c. Opinberar byggingar 1,32%
c. Aðrar fasteignir, 1,4% af fasteignamati.

Fasteignaskattur aldraðra, 70 ára og eldri, sem og 75% öryrkja, sem búa í eigin húsnæði, verði felldur niður.

Gjalddagar fasteignagjalda verði 5 talsins; 1. febr., 1.,apríl., 1., júní., 1 ágúst og 1., október.
Eindagar eru 30 dögum eftir gjalddaga, en dráttarvextir reiknast á vanskil frá gjalddaga.

3.Lóðarleiga Drangsneslandi: Lóðarleiga verði 1,3% af fasteignamati lóðar .
4.Vatnsgjald: Vatnsgjald verði í samræmi við samþykkta gjaldskrá.
5.Sorpgjald: Sorpgjald verði í samræmi við samþykkta gjaldskrá.
6. Leikskóli: Gjaldskrá leikskóla hækki um 10%
7. Holræsagjald: Holræsa og rotþróargjald verði 10.000 pr hús.
Þetta er óbreytt frá þessu ári.
Tillagan borin upp og samþykkt.

4. Gjaldskrá Hitaveitu 2012
Oddviti leggur fram tillögu um gjaldskrá fyrir Hitaveitu Drangsness árið 2012.
Mesta hækkunin liggur í hækkun heimtaugagjalda en þau hafa lítið hækkað frá stofnun veitunnar. Vatnsgjald hækki um 8% og mælagjald um 20%.
Tillagan borin upp og samþykkt.

5. Gjaldskrá fyrir sorphirðu 2012
Oddviti leggur fram tillögu að hækkun sorphirðugjalda í Kaldrananeshreppi. Sorpgjald fyrir íbúðarhús verði kr. 22.000.- á ári. Samkvæmt lögum skulu sorpgjöld duga fyrir kostnaði við þennan málaflokk og er með þessari tillögu verið að nálgast það markmið þó ekki náist það að fullu ennþá.
Tillagan borin upp og samþykkt.

6. Fjárhagsáætlun 2012 fyrri umræða
Fjárhagsáætlunun afgreidd til síðari umræðu.

7. Fundargerð Sorpsamlags og fjárhagsáætlun 2012
Fundargerð Sorpsamlags Strandasýslu ásamt fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 lögð fram. Fjárhagsáætlunin hækkar um 10% frá síðasta ári.
Fundargerðin og fjárhagsáætlunin afgreidd athugasemdarlaust.

8. Bréf frá hótelhöldurum Laugarhóli
Einar Unnsteinsson og Vigdís B. Esradóttir hótelhaldarar hótel Laugarhóli fara þess á leit við sveitarstjórn í bréfi dagsettu þann 1.nóvember s.l að kyndingarkostnaður á Hótel Laugarhóli verði endurskoðaður (lækkaður) í ljósi þess að starfssemin fer fyrst og fremst fram á tímabilinu maí til sept ár hvert og þess utan sé húsið lítið notað.
Ekki hefur Hótel Laugarhóll greitt fyrir heitt vatn frá því að vatn úr borholunni var tengt inn í húsið haustið 2009.
Enginn annar notandi að heitu vatni frá Hitaveitu Drangsness hefur notið viðlíkra kjara. Allir aðilar greiða samkvæmt notkun og gildandi gjaldskrá.
Þar sem hitastig vatns á Klúku er töluvert lægra en á Drangsnesi er eðlilegt að gjaldið sé í samræmi við það. Sveitarstjórn getur ekki fallist á að þar sem nýting hússins sé lítil utan sumartíma eigi að fella niður gjöld fyrir þann tíma. Stór hluti húsa á Drangsnesi eru ekki nýtt nema að litlu leiti á ársgrundvelli, hvort heldur um er að ræða sumarhús eða fyrirtæki í sömu starfsgrein og Laugarhóll.
Oddvita falið að ganga til samninga við hótelhaldara á Laugarhóli.
a. annað hvort verði greitt samkvæmt mæli þá er gjaldið 33% lægra en á Drangsnesi vegna lægra hitastigs en á Drangsnesi.
b eða greitt sama meðalverðsnotkun og á Drangsnesi per fermetri.

9. Byggðasafnið Reykjum
Skýrsla um safnastarfið lögð fram til kynningar. Þá er rekstraráætlun fyrir árið 2012 lögð fram til kynningar.

10. Hitaveitumál
Nokkrir íbúar í Bjarnarfirði hafa óskað eftir að fá hitaveitu í hús sín. Sveitarstjórn hafði samþykkt að taka málið til afgreiðslu við gerð fjárhagsáætlunar. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir þessari framkvæmd og gert ráð fyrir að hitaveitan fá eingreiðslu vegna 8 ára orkunotkunar þessara húsa til húshitunar alls um 4 milljónir en síðan sú áætlun var unnin hefur komið í ljós að skv. lögum á að endurgreiða alla opinbera styrki áður en til eingreiðslunar kemur, þar með talda jarðhitaleitarstyrki. Hitaveitan fékk styrk vegna jarðhitaleitar á Klúku og þyrfti samkvæmt þessum lögum að endurgreiða þær 4 milljónir sem hún fékk í styrk ef hún á að njóta eingreiðslunnar. Þá er grundvöllur fyrir því að leggja hitaveitu til þessara húsa mun erfiðarin en áður var gert ráð fyrir.. Kostnaður við heimtaugar til hvers húss færi langt fram úr því sem hægt er að ætlast til að hægt sé að innheimta af eigendum húsanna.
Sveitarstjórn felur oddvita og hitaveitustjóra að skoða málið og funda með íbúum í Bjarnafirði um málið.

11. Bréf frá Heilbrigðiseftirliti
Samkvæmt bréfi frá Heilbrigiseftirliti Vestfjarða dags. 24. nóv s.l stóðst vatnssýni frá vatnsveitu Drangsness allar gæðakröfur skv reg.nr536/01
Lagt fram til kynningar

12. Fundargerð Heilbrigðiseftirlits
Fundargerð Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 4. nóvember lögð fram til kynningar ásamt lista yfir fyrirtæki í sveitarfélaginu sem fengið hafa eftirlit 2011. Afgreitt athugasemdalaust. Þá er fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits fyrir árið 2012 ásamt gjaldskrá lagt fram og afgreitt athugasemdarlaust
Fundargerð Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 2. desember lögð fram og afgreidd athugasemdarlaust.

13. Fundur með framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar vesturlands
Oddviti gerði grein fyrir upplýsingafundi með framkvæmdastjórn HVE þann 7. des s.l á Hólmavík um málefni Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, væntanleg fjárlög og óhjákvæmilegar aðgerðir á þjónustusvæði stofnunarinnar á árinu 2012 í ljósi mikils niðurskurðar sem er viðfangsefni stjórnenda um þessar mundir.

14. Deiliskipulag Svanshóli
Sveitarstjórn samþykkir að deiliskipulag fyrir Svanshól fari aftur í auglýsingarferli skv nýjum lögum.

15. Bsvest –kostnaðargreining og jöfnun kostnaðar 2012
Oddviti gerði grein fyrir fundi sem var með verkefnastjóra Bs-vest á Reykhólum í dag.
16. Fundargerð velferðarnefndar frá 30. nóv 2011
Fundargerðin afgreidd athugasemdarlaust.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl 24.00