Sveitarstjórnarfundur 9. desember 2010

Fimmtudaginn 9. desember 2010 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 6. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Óskar Torfason, Magnús Ásbjörnsson, Guðbrandur Sverrisson og Sunna Einarsdóttir.

Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá í 7 liðum.
Oddviti leitar afbrigða til að taka á dagskrá sem 8 lið bréf frá Sóknarnefbd Drangsnessóknar dags 8.12.2010 og sem 9. mál á dagskrá bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dags 9.12.2010 ásamt fylgigögnum sem 10 mál bréf frá Skipulagsstofnun dags 8.12.2010 s.l og sem 11.mál Bref frá Pétri Guðmundssyni dags 9.12 2010 Afbrigði samþykkt.

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu

Dagskrá:
1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 3.nóv s.l
2. Fundargerðir nefnda
3. Samningsdrög v Velferðarnefndar ásamt erindisbréfi v hennar.
4. Tekjustofnar Kaldrananeshrepps 2011
5. Gjaldskrárhækkanir
6. Ársreikningur Laugarhóls ehf
7. Fjárhagsáætlun 2011 – fyrri umræða
8. Bréf frá Sóknarnefnd Drangsnessóknar dags 8.12.2010
9. Bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dags 9.12.2010
ásamt fylgigögnum.
10. Bréf frá Skipulagsstofnun dgs 8.12.2010
11. Bréf frá Pétri Guðmundssyni dags 9.12.2010

Var þá gengið til dagskrár

1. Fundragerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 3. nóv s.l
Oddviti gerðið grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda.
Fundargerð skólanefndar frá 8. nóv s.l.
Fundargerðin afgreidd athugasemdarlaust.

3. Samningsdrög v. Velferðarnefndar ásamt erindisbréfi hennar.
Fyrir fundi liggur samningur sveitarfélaganna Kaldrananeshrepps, Reykhólahrepps, Árneshrepps og Strandabyggðar um skipan, rekstur og starfssemi sameiginlegrar félagsmálanefndar. Velferðarnefndin mun koma í stað félagsmálanefnda þessara sveitarfélaga og taka við þeim verkefnum sem þeim nefndum er falið samkvæmt lögum og ákvörðun sveitarstjórna. Velferðarnefndin mun taka til starfa 1. janúar 2011.
Oddviti leggur til að sveitarstjórn samþykki að leggja félagsmálanefnd Kaldrananeshrepps niður frá 1. janúar 2011. Tillagan borin upp og samþykkt
Þá leggur oddviti til að fyrirliggjandi samningur milli sveitarfélaganna Kaldrananeshrepps, Reykhólahrepps, Árneshrepps og Strandabyggðar um skipan, rekstur og starfssemi sameiginlegrar félagsmálanefndar sem kölluð verður velferðarnefnd verði samþykktur. Tillagan borin upp og samþykkt.
Erindisbréf fyrir velferðarnefnd lagt fram.
Oddviti leggur til að framlagt erindisbréf fyrir velferðarnefnd Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Reykhólahrepps og Strandabyggðar verði samþykkt.
Tillagan borin upp og samþykkt.

4. Tekjustofnar Kaldrananeshrepps 2011
Oddviti leggur fram eftirfarandi tillögu um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins fyrir árið 2011.
1. Útsvar verði 13,28% og þar til viðbótar 1,2% vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra eða 14,48% í allt.
2. Fasteignaskattur:
a. Íbúðarhús, sumarhús og útihús í sveitum 0,5% af fasteignamati.
b. opinberar byggingar 1,32% af fasteignamati
c. Aðrar fasteignir 1,4% af fasteignamati.

Fasteignaskattur aldraðra, 70 ára og eldri sem og 75% öryrkja, sem búa í eigin húsnæði verði felldur niður 100%.
Gjalddagar fasteignagjalda verði 5 talsins; 1. febr, 1. apríl, 1 júní, 1. ágúst og 1. október. Eindagar verði 30 dögum eftir gjalddaga en dráttarvextir reiknast á vanskil frá gjalddaga.

3. Lóðarleiga Drangsnesland: Lóðarleiga verði 1,3% af fasteignamati lóðar.
4. Vatnsgjald: Vatnsgjald verði í samræmi við samþykkta gjaldskrá.
5. Sorpgjald: Sorpgjald verði í samræmi við samþykkt gjaldskrá
6. Leikskóli: Gjaldskrá leikskóla hækki í samræmi við samþykkta gjaldskrá.
7. Holræsagjald: Holræsa og rotþróargjald verði 10.000 pr hús eða sumarbústað.
Tillagan borin upp og samþykkt.

5. Gjaldskrárhækkanir.
Sorpgjald:
Gjaldskrá vegna sorphirðu verði pr. ár. á hvert íbúðarhús og lögbýli kr. 17.000.-
Sumarhús greiði kr. 11.800.-
Fyrirtæki, stofnanir, félög og aðrir sambærilegir lögaðilar greiði gjald er miðist við magn úgangs. Lágmark kr. 25000.-og hámark 380.000.-
Tillaga að gjaldskrá fyrir sorphirðu í Kaldrananeshreppi borin upp og samþykkt.
Leikskóli:
Gjaldskrá vegna dagvistar hækki um 10% og verði kr 125,40 pr klst og fæðisgjald verði kr. 4.300.- pr. mán. Systkina afsláttur verði 50% fyrir hvert barn umfram eitt.
Tillaga að gjaldskrá fyrir leikskóla borin upp og samþykkt.
Vatnsveita:
Gjaldið fyrir íbúðarhús skal vera 0,3% af gjaldstofni fasteignagjalds eigna sem falla umdir a lið 3. gr laga nr. 4/1995 og 0,4% fasteignum sem falla undir b og c lið sömu greinar. Hámarksgjald á hverja eign skv. a-lið skal þó vera kr. 14.000.- og lágmarksgjald skv a –lið skal vera kr. 8.000.-
Í fyrirtækjum og annars staðar þar sem vatn er notað til annars en venjulegra heimilisþarfa, vegna atvinnu sem í þeim er rekin eða af öðrum ástæðum skal auk vatnsgjalds greiða sérstakt gjald aukavatnsgjald kr. 14 fyrir hvern rúmmetra vatns s.br reglug. Nr. 40/2005.

Heimæðargjald skv. rgl.nr. 401/2005 skal vera 290 kr. pr rúmmeter húss miðað við utanmál.
Gjalddagar skulu vera sömu og fasteigangjalda. Gjöld skv gjaldskrá þessari, önnur en vatnsgjald sem reiknast af gjaldstofni fasteignagjalda, miðast við byggingarvísitölu 100,8 stig í desember 2010 og breytist ársfjórðungslega miðað við gildandi byggingarvísitölu.
Tillaga að gjaldskrá fyrir Drangsnesvatnsveitu verði frestað.
Hitaveita Drangsness:
Gjaldskrá Hitaveitu Drangsnes hækki um 8%.en mælagjald um 20%.
Tillaga að gjaldskrá Hitaveitu Drangsness borin upp og samþykkt.

6. Ársreikningur Laugarhóls ehf
Ársreikningur Laugarhóls ehf lagður fram til kynningar.

7. Fjárhagsáætlun 2011 – fyrri umræða
Fjárhagsáætlun vegna ársins 2011 afgreidd til síðari umræðu.

8. Bréf frá Sóknarnefnd Drangsneskapellu dags 8.12. 2010
Á aðalfundi sóknarnefdnar þann 5 júlí s.l kom fram áhugi á að farið yrði í endurbætur á skólahúsnæði grunnskólans á Drangsnesi og er sóknarnefnd tilbúin að taka þátt í þeim kostnaði og lýsir sig reiðubúna til samráðs um tilhögun þeirra framkvæmda. Þá bendir sóknarnefndin einnig á að bæta þarf aðgengi að húsnæðinu t.d lagfæringu á tröppum og handrið.
Sveitarstjórn þakkar erindið og vísar málinu til fjárhagsáætlunar.

9. Bréf frá Fjórðngssambandi Vestfirðinga dags. 9.12.2010
Starfshópur sem skipaður var samkvæmt samþykkt 54. Fjórðungsþings Vestfirðinga til undirbúnings að tilflutningi á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga á Vestfjörðum hefur skilað útfærðri tillögu til stjórnar FV um stofnun byggðasamlags um verefnið. Tillagan er byggð á grundvelli samstarfssamnings sveitarfélaga um rekstur félagsþjónustusvæða og samþykki verkefnastjórnar ríkis og sveitarfélaga um málaflokkinn varðandi undanþágu frá lágmarks íbúafjölda þjónustusvæða þ.e 8000 manns. Stjórn FV samþykkti tillögu starfshópsins um stofnun Byggðasamlags um málefni fatlaðs folks á Vestfjörðum og að beina erindinu til viðkomandi sveitarfélaga.
Eftirfarandi skjöl og samningar eru lagðir fram til ákvörðunar sveitarstjórnar.
a.)Samstarfssamningur sveitarfélaga á Vestfjörðum um starfrækslu byggðasamlags um málefni fatlaðra. Samningurinn samþykktur samhljóða.
b.) Þjónustusamningur félagsþjónustusvæða sveitarfélaga á Vestfjörðum.
Þjónustusamningurinn samþykktur samhljóða.
c) Viðauki 1, um tekjur Byggðasamlags Vestfjarða. Viðauki 1 samþykktur samhljóða.
d.) Viðauki 2, um sundurliðun samningsfjárhæða samþykktur með fyrirvara um frekari skiptingu og fjárupphæðir.
e.) Viðauki 3, um verkefni þjónustusvæða. Viðauki 3 samþykktur samhljóða.

Þá eru lögð fram til kynningar erindisbréf þjónustuhóps félagsþjónususvæða og erindisbréf verkefnisstjóra Byggðasamlags Vestfjarða.

10. Bréf frá Skipulagsstofnun dags 8.12.2010
Það er niðurstaða skipulagsstofnunar að lagning Strandavegar(643), Djúpvegur-Geirmundrstaðavegur, í Strandabyggð sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Lagt fram til kynningar.

11. Bréf frá Pétri Guðmundssyni dags 9.12.2010
Efni landamerki jarða, hnit :
Pétur vekur athygli á nauðsyn þess að skrá hnit landamerkja jarða áður en landamerki týnast úr minnum manna, og óskar eftir að sveitarstjórnir hlutist til að um að þessu verði komið í verk.
Sveitarstjórn tekur jákvætt í málefnið og felur oddvita að hafa samband við nágrannasveitarfélögin.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl 00,15