Fréttatilkynning:

Stofnun Hollvinafélags Gvendarlaugar hins góða í Bjarnarfirði
 
gvendarlaugSunnudaginn 20. júlí næstkomandi verður formlega stofnað Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða í Bjarnarfirði á Ströndum í minningu þeirra framsýnu eljumanna sem fyrir réttum 60 árum tókust á hendur það þrekvirki að byggja í sjálfboðavinnu sundlaug fyrir eigin fjármuni í þessu fámenna byggðarlagi.
 

Fyrsta verkefni félagsins verður að safna fjármunum svo unnt verði að ráðast í gerð vandaðrar áætlunar um nauðsynlegar framkvæmdir til viðhalds og endurbóta á lauginni. Sú áætlun yrði síðan grundvöllur frekari fjáröflunar úr opinberum sjóðum. Nú þegar hefur Sundfélagið Grettir hlotið styrk upp á 300 þúsund krónur frá UMFÍ til þess að bæta umhverfi sundlaugarinar.
 
Afkomendur þeirra sem byggðu laugina í upphafi og allir þeir fjölmörgu sem hafa í áranna rás notið mannvirkisins til sundnáms eða ánægjunnar vegna, auk þeirra sem hafa áhuga á að standa við bakið á félaginu og taka þátt í uppbyggingarstarfinu eru hvattir til að mæta á sundlaugarbakkann sunnudaginn 20. júlí næstkomandi og taka þátt í dagskrá sem hefst þar kl. 13:00 - ekki gleyma sundfötunum.
 
Þeir sem ekki eiga heimangengt þennan dag en hafa engu að síður áhuga á að leggja málefninu lið eru beðnir um að senda nafn og netfang til Sundfélagsins Grettis á netfangið finnurol(a)gmail.com  og mun þá verða haft samband við viðkomandi að stofnfundi loknum. Ef þið vitið um einhverja fleiri sem hefðu hug á að styrkja málefnið þá vinsamlegast látið þá vita.