Skýrsla um Grímsey

Mat á stofnstærð og veiðiþoli lunda í Grímsey á Steingrímsfirði

í Grímsey á Steingrímsfirði (héðan í frá Grímsey) hefur frá fornu fari verið stæðilegt lundavarp. Að beiðni eigenda Grímseyjar var farinn leiðangur í Grímsey í júní 2006 sem hafði það að markmiði að meta stofnstærð lunda í eynni og áætla veiðiþol stofnsins. Í leiðangrinum voru Böðvar Þórisson, Hersir Gíslason, Höskuldur Búi Jónsson og Tómas Grétar Gunnarsson. Hér eru birtir úrdrættir úr þessari skýrslu að beiðni landeigenda.

lundabyggd

Loftmynd af Grímsey á Steingrímsfiirði. Útbreiðsla varpa og búsvæðagerðir eru sýnd í grófum dráttum.


Stofnmat

Í stærri vörpunum þar sem þéttleiki var mældur töldust vera 27148 virkar holur og 95% öryggismörk gáfu bilið 19398-34177. Í vörpum þar sem þéttleiki var ekki mældur heldur áætlaður (út frá mældum vörpum) töldust vera 3592 holur. Áætlað var að þau vörp væru með hliðstæðri skekkju og stærri vörpin og gaf hún bilið 2795-4925 . Í vörpum þar sem allar holur voru taldar fundust 320 virkar holur sem taldar voru án skekkjumarka. Heildarstærð varpstofnsins í Grímsey var því áætluð 31060 virkar lundaholur.

Umræða

Ljóst er að í Grímsey á Steingrímsfirði er stæðileg lundabyggð eða e.t.v. um eitt prósent af íslenska varpstofninum (Ævar Petersen 1998). Vörp sem eru hliðstæð að stærð eða mun stærri eru þó víða og þéttleiki lunda er oft hærri eða útbreiðsla innan eyja meiri. T.d. má nefna að í Lágey utan Tjörness (önnur Mánáreyja) mældist hliðstæður fjöldi lunda (33000 virkar holur) en hún er innan við þrír ha að stærð (Ævar Petersen 1985). Byggðin í Grímsey er þó sennilega sú stærsta á NV-landi milli Hornbjargs og Drangeyjar á Skagafirði (Arnþór Garðarsson, munnlegar upplýsingar). Miðað við fjölda virkra varphola má gera ráð fyrir að fullorðnir varpfuglar séu um 60 þúsund (44-78 þúsund miðað við skekkjumörk).

Mat á veiðiþoli

Framvinda stofnsins í Grímsey er ekki þekkt né heldur aldursdreifing í stofninum sjálfum eða afla. Sé miðað við meðaltalstölur úr öðrum stofnum má gera ráð fyrir að árleg framleiðsla af ungfuglum sem ekki fer í að bæta upp afföll á fullorðnum (athugið að afföll á fullorðnum vegna veiða eru óþekkt og hér er gert ráð fyrir að þau séu engin) sé um 2300 fuglar. Hér er lagt til að árleg lundaveiði fari ekki upp fyrir 1000-1500 fugla þar til betri upplýsingar liggja fyrir um framvindu lundastofnsins í Grímsey. Þessi tala miðast við að veitt sé úr fuglunum 2300 og að stofninn hafi samt einhvern sveigjanleika til að þola ófyrirsjáanlega áföll.