Undirbúningur fyrir Bryggjuhátíðina

Nálægt 40% af íbúafjölda Kaldrananeshrepps mætti í sjálfboðavinnu fyrir Bryggjuhátíðina. Nú fer að styttast í Bryggjuhátíðina og greinilegur hugur í fólki. Eitthvað um 36-40 manns mættu á vinnukvöld á miðvikudagskvöldið til að vinna að hinum ýmsu verkum sem ljúka þarf fyrir hátíðina. Bæði ungir og aldnir. Sú yngsta tæplega þriggja ára og sá elsti um sjötugt. Var ekkert verið að slóra við vinnuna og helst að verkefnin vantaði. Það var slegið og rakað, tínt upp grjót og lúpína. Tekið til í höfninni og gluggarnir þvegnir í samkomuhúsinu meðan aðrir skiptu þar um perur og athuguðu með græjurnar. Það var farið yfir birgðastöðu frá síðasta ári og tekið til hvað þarf að kaupa inn vegna komandi hátíðar. Stillt upp fyrir útiljósmyndasýningunni og farið yfir tjaldstæðamerkingar og fleira í þeim dúr. Síðan var góður hópur að vinna að því að greina og merkja myndirnar sem verða á ljósmyndasýningunni í skólanum. Og er ekki allt upp talið enn. Næsta vinnukvöld verður í næstu viku en einhverjir munu samt taka til hendinni við slátt á kvöldin ef að líkum lætur.