Mugison á Hótel Laugarhóli

 

mugisonVestfirski fimm stjörnu strákurinn MUGISON ætlar að hefja tónleikaferð sína um Vestfirði á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði á Ströndum næstkomandi fimmtudagskvöld 10. nóvember 2011 og hefjast þeir kl. 21:00 (ekki kl. 20:30).

Tilefnið er útgáfa á nýjum hljómdiski, HAGLÉL, en diskurinn er jafnframt sá fyrsti úr smiðju MUGISON þar sem allir textar eru á íslensku. Það gleður landann að heyra unga sem aldna kyrja á ástkæra ylhýra… STINGUM AF…, en eins og heimamenn muna glöggt var þetta geysivinsæla lag frumflutt á fyrstu tónleikum MUGISON og félaga á Hótel Laugarhóli í fyrrasumar.

HAGLÉL hefur sannarlega slegið í gegn, trjónir hátt á vinsældarlistum viku eftir viku, og uppselt á fjölmarga útgáfutónleika sem haldnir hafa verið að undanförnu vítt og breitt um landið. Gagnrýnendur hafa einróma lofað þessa nýjustu afurð Vestfjarða-víkingsins og tónleikhaldið í kjölfarið, og væri gaman að sjá Strandamenn sem og aðra ævintýraþyrsta landsmenn fjölmenna á þessa frábæru tónleika.

Þar sem hótelhaldarar á Laugarhóli gera að sjálfsögðu ráð fyrir mikilli aðsókn, og sætafjöldi er takmarkaður, eru menn hvattir til að tryggja sér miða ekki seinna en strax á www.mugison.is Miðaverð er 2500 kr. og um að gera að láta ekki þennan einstaka tónlistarviðburð fram hjá sér fara.

Fyrir þá sem þess óska er gisting í boði á Hótel Laugarhóli á sérstökum vildarkjörum þetta kvöld. Tveggja manna herbergi, uppbúin rúm með baði og morgunverði kostar 11700 kr. (5850 kr. á mann) og án baðs með morgunverði 9000 kr. (4500 kr. á mann).

Einnig er boðið uppá kvöldverð, ljúffengt lasagna með heimabökuðu brauði, grænmetissalati og kaffi fyrir 2700 kr. á mann (500 kr. auka afsláttur fyrir hótelgesti).

Nauðsynlegt er að panta mat og/eða gistingu fyrirfram og í síðasta lagi miðvikudaginn 9. nóvember. Einar hótelstjóri tekur á móti pöntunum í síma 451-3380 / gsm. 698 5133 eða með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

VERIÐ HJARTANLEGA VELKOMIN!

Framundan

October 2019
M T W T F S S
1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31

Breyta