Sveitarstjórnarfundur 13. apríl 2019
- Details
- Laugardagur, 13 apríl 2019 14:20
Sveitarstjórnarfundur 13.04
Laugardaginn 13. apríl 2019 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 10. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Ingólfur Árni Haraldsson, Arnlín Óladóttir, Eva K. Reynisdóttir og Margrét Bjarnadóttir. Oddviti setti fund kl. 10:00 og stýrði honum samkvæmt áður útsendri dagskrá í 22 liðum
Ingólfur Árni Haraldsson ritar fundargerð á tölvu.
Dagskrá
- Fundargerð sveitarstjórnarfundar frá 26.02.2019
- Fundagerð nefnda
- Aðrar fundargerðir
- Hitaveita Drangsness – fjarskiptafyrirtæki
- Aðalskipulag
- Breyting á deiliskipulagi Drangsnesi
- Umsókn um lóð
- Yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga
- Styrkumsókn Félags eldri borgara
- Styrkumsókn Vestfjarðavíkingurinn
- Akstursþjónusta fatlaðra
- Áætlun um tekjur og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
- Bréf frá Þjóðskjalasafni Íslands
- Byggðastofnun – samfellt þjónustukort
- Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga
- Skipun fulltrúa í verkefnaráð vegna tengivirkis í Djúpi
- Styrkbeiðni Skíðafélags Strandamanna
- Fréttatilkynning vegna aldarafmælis fullveldis Íslands
- Bréf til skógarbænda
- Húsbygging
- Ljósleiðari Drangsnesi
- Gjaldskrá ljósleiðara
- Fundargerð sveitarstjórnarfundar frá 26.02.2019
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi. Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.
- Fundagerð nefnda
- Fundargerð Byggingar.- skipulags og umhverfisnefndar frá 11. mars 2019
Fundargerðin sem er í 2 liðum afgreidd athugasemdalaust.
- Aðrar fundargerðir
- Fundargerð 868. fundar stjórnar sambands ísl. sveitarfélaga lögð fram til kynningar.
- Fundargerð Landsnets frá fundi á Hólmavík þann 27.3.2019. Lögð fram til kynningar
- Hitaveita Drangsness – fjarskiptafyrirtæki
Í bréfi Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 4.4.2019 kemur fram að í samræmi við 3. mgr.4.gr fjarskiptalaga nr. 81/2003 færir Póst- og fjarskiptastofnun Hitaveitu Drangsness á lista yfir fjarskiptafyrirtæki. Sveitarstjórn bókar að taka til skoðunar samþykktir og nafnabreytingu á Hitaveitu Drangsness í ljósi nýrrar þjónustu.
- Aðalskipulag
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu.
- Breyting á deiliskipulagi Drangsness.
Deiliskipulag fyrir Drangsnes, Kaldrananeshreppi
Svæði E - Skilmálabreyting
Deiliskipulag fyrir Drangsnes, svæði E
Gildandi deiliskipulag var samþykkt 04.02.2015 og auglýst í B-deild Sjórnartíðinda 25.03.2015.
Gildandi ákvæði
Svæði-E Holtagata, nýgata,”Vitavegur” og lóð austan þjóðvegar við Kvíabala
Um er að ræða 4 íbúðarhúsalóðir við “Vitaveg” þar sem lóðastærðir eru á bilinu 793 til 864 fermetrar. Byggingarlína er bindandi.
Stærðir íbúðarhúsa getur verið mismunandi eða allt frá 120 til 250 fermetrar, með innbyggðri bílageymslu eða sjálfstæðri einingu.
Sé um að ræða bílageymslu, sem er sjálfstæð eining, reiknast hún ekki með í íbúðarstærðinni.
Breyting á skilmálum
Svæði-E Holtagata, nýgata,”Vitavegur” og lóð austan þjóðvegar við Kvíabala
Um er að ræða 4 íbúðarhúsalóðir við “Vitaveg” þar sem lóðastærðir eru á bilinu 793 til 864 fermetrar. Byggingarlína er bindandi.
Stærðir íbúðarhúsa getur verið mismunandi eða allt frá 30 til 250 fermetrar, með innbyggðri bílageymslu eða sjálfstæðri einingu.
Sé um að ræða bílageymslu, sem er sjálfstæð eining, reiknast hún ekki með í íbúðarstærðinni.
Deiliskipulagsbreyting þessi,sem fengið hefur meðferðí samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 var samþykkt á
Sveitarstjórnarfundi þann til 13.4 2019.
Tilsamræmis við heimild í 3. mgr. 44. gr. i.f. var breytingin ekki grenndarkynnt þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en Kaldrananeshrepps og/eða umsækjanda.
Auglýsing um gildistöku breytingarinnar verður birt í B-deild Stjórnartíðinda
- Umsókn um lóð. Ingólfur lýsir sig vanhæfan og víkur af fundi. Finnur tekur við að rita fundargerð.
Baldur Steinn Haraldsson og Hildur Aradóttir sækja um lóð nr. 4 á Vitabraut undir 30 fermetra hús sem reist verður í sumar. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta þeim þessari lóð, með fyrirvara um að Skipulagsstofnun samþykki breytingar á deiliskipulagi um stærðarkröfur.
Ingólfur mætir aftur á fund og tekur við að rita fundargerð
- Yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga
Í tengslum við lífskjarasamningar 2019-2022 beinir Samband íslenskra sveitarfélaga þeim tilmælum til sveitarfélaga á Íslandi að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda og mælist til þess að sveitarfélögin hækki ekki gjaldskrár umfram 2,5% á árinu 2020 og minna ef verðbólga verður minni. Lagt fram til kynningar. Sveitarsjórn tekur áskoruninni og ætlar að leggja sitt af mörkum til að viðhalda stöðugleika.
- Styrkumsókn Félags eldri borgara.
Félag eldri borgara í Strandasýslu óskar eftir styrk frá Kaldrananeshreppi
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja félag eldri borgarar með 50.000 kr. Styrkur samræmist fjárhagsáætlun fyrir árið 2019.
- Styrkumsókn Vestfjarðavíkingurinn
Vestfjarðarvíkingurinn óskar eftir styrk frá Kaldrananeshreppi
Sveitarstjórn hefur sett sig í samband við fyrirtæki á svæðinu og þátttaka verður með svipuðu sniði og var árið 2018.
- Akstursþjónusta fatlaðra
Bréf Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um akstursþjónustu fatlaðs fólks 2019 lagt fram til kynningar.
- Áætlun um tekjur og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Áætlun um tekjur og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lögð fram til kynningar.
- Bréf frá Þjóðskjalasafni Íslands
Þjóðskjalasafn hefur í bréfi dags 27.3.2019 sent tilmæli vegna skjalavörslu og skjalastjórnunar sveitarstjórnarskrifstofunnar í Kaldrananeshreppi og bendir á lög sem varða þetta mál. Sveitarstjórn mun bregðast við þessum og setja sig í samband við Þjóðskjalasafn Íslands
- Byggðastofnun – samfellt þjónustukort
Byggðastofnun vinnur nú að gerð gagnvirks yfirlitskorts með upplýsingum um aðgengi landsmanna að almennri þjónustu á vegum bæði stjórnvalda og einkaaðila. Óskað er eftir samstarfi við sveitarfélög og hefur útbúið samningsform sem skilgreinir í hverju samstarfið við Byggðastofnun felst.
Starfsmönnum sveitafélagssins falið að safna, vinna og skila gögnum fyrir þjónustukort. Oddvita falið að ganga frá samstarfssamning við Byggðarstofnun.
- Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga
- Bréf dags 18.3.s.l sem er sent öllum sveitarstjórnum landsins þar sem minnt er á hlutverk nefndarinnar og þar sem óskað er eftir yfirliti vegna stöðu einstakra fjárfestingasverkefna á árinu 2019. Lagt fram til kynningar.
- Bréf dags. 4. mars s.l. vegna ársreiknings 2017. Hefur eftirlitsnefndin móttekið svarbréf sveitarfélagsins dags 27. nóvember 2018 vegna upplýsingaöflunar eftirlitsnefndarinnar um neikvæða rekstrarniðurstöðu á árinu 2017. Niðurstaða nefndarinnar er að óska ekki eftir frekari upplýsingum vegna þessa.
- Skipun fulltrúa í verkefnaráð vegna tengivirkis í Djúpi
Í sambandi við stofnun verkefnaráðs vegna uppsetningar tengivirkis í Djúpi og tenginu fyrirhugaðrar Hvalávirkjunar óskar Landsnet eftir því að sveitarfélagið tilnefni fulltrúa í verkefnaráðið. Sveitarstjórn samþykkir að Finnur Ólafsson verði aðalfulltrúi og Margrét Ólöf Bjarnadóttir verði varafulltrúi Kaldrananeshrepps í verkefnaráði vegna undirbúnings tengivirkis í Djúpi.
- Styrkbeiðni Skíðafélags Strandamanna
Skíðafélag Strandamanna óskar eftir fjárstyrk vegna kaupa á snjótroðara.
Sveitarstjórn samþykkir að fullnýta styrk sem sveitastjórn hefur til úthlutunar í íþrótta- og æskulýðsmál í lið 4110 á fjárhagsáætlun að upphæð 150.000 kr til Skíðafélags Strandamanna til kaup á snjótroðara.
- Fréttatilkynning vegna aldarafmælis fullveldis Íslands
Fréttatilkynningin lögð fram til kynningar.
- Bréf til skógarbænda
Bréf Skógræktarinnar til skógarbænda dags 9.4.2019 lagt fram til kynningar.
- Húsbygging
Sveitarstjórn samþykkir að hefja vinnu við gerð á viðauka við fjárhagsáætlun og sérfræðiálits vegna framkvæmda sem fyrirhuguð er á Holtagötu 6-8
Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita að leytast tilboða í teikningar af parhúsi sem er fyrirhugað á Holtagötu 6-8, Oddviti fær heimild sveitarstjórnar til að ganga frá kaupum á teikningum ef viðunnandi tilboð fæst. Einnig mun sveitarfélagið ganga til samninga við verktaka á svæðinu sem ráðist geta í framkvæmd. Borið upp og samþykkt samhljóða.
- Ljósleiðari Drangsnesi
Oddviti gerir grein fyrir stöðu mála.
- Gjaldskrá ljósleiðara
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps leggur til að hafa línugjald fyrir ljósleiðara 3.300 kr með vsk. Borið upp og samþykkt samhljóða. Oddvita falið að auglýsa gjaldskrá í B-deild stjórnartíðinda.
Fleira ekki fyrirtekið
Fundargerð lesin upp og samþykkt og undirrituð
Fundi slitið kl.14:02