Sveitarstjórnarfundur 30. apríl 2015

Fimmtudaginn 30. apríl 2015 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 13. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson oddviti, Guðbrandur Sverrisson, Magnús Ásbjörnsson, Jenný Jensdóttir og Ingólfur Haraldsson.

Oddviti setti fund kl 20.00 og stýrði honum samkvæmt dagskrá.
Oddviti leitar afbrigða til að taka sem 15 mál á dagskrá bréf frá Óskari Torfasyni um hitaveitu á Drangsnesi og sem 16. lið Sundlaugin Drangsnesi. Og liður nr. 17. Tilboð í þrif á sparkvelli Afbrigði samþykkt
1. Fundargerð síðasta fundar
2. Breytingatillaga við aðalskipulag
3. Erindi frá Bergsveini Birgissyni
4. Erindi frá Óskari Torfasyni
5. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða ársskýrsla
6. Erindi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
7. Umsagnir til Alþingis – Samband ísl sveitarfélaga
8. Skjólskógar Vestfjörðum ársskýrsla og ársreikningur
9. Fjórðungssamband – ljósleiðaramál
10. Grundargata 9-11
11. Fundargerð Bsvest
12. Áskorun Landshlutasamtaka
13. Erindi IOGT
14. Samantekt af samráðsfundi í Tjarnarlundi.
15. Hitaveitan Drangsnesi
16. Sundlaugin á Drangsnesi
17. Tilboð í þrif á sparkvelli

Jenný Jensdóttir ritar fundargjörð á tölvu.

1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 13.04.2015
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.Samþykkt athugasemdalaust.
2. Breytingatillaga við aðalskipulag
Finnur Ólafsson oddviti lagði fram breytingartillögu við gildandi aðalskipulag Kaldrananeshrepps. Breytingartillagan varðar breytta veglínu í Bjarnarfirði.
Breytingatillagan samþykkt.
3. Erindi frá Bergsveini Birgissyni
Bergsveinn Birgissson leggur fram í bréfi dagsettu þann 25. apríl s.l fyrirspurn varðandi afstöðu sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps við þeirri hugmynd hans að setja upp flísalistaverk af sjávarguðinum Poseidon í Kaldrananeshreppi til heiðurs Golfstraumnum sem umlykur Ísland. Hann mun sjá um allan kostnað við uppsetningu listaverksins. Ekki er búið semja við landeigendur um staðsetningu. Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið en áréttar að mikilvægt sé að gott aðgengi allra sé virt.
4. Erindi frá Óskari Torfasyni
Erindi sem Óskar Torfason sendi þingmönnum varðandi makrílkvótafrumvarpið lagt fram. Sveitarstjórn tekur undir með Óskari og felur oddvita að árétta þá skoðun við alþingismenn.
5. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða ársskýrsla
Starfsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða 2014 lögð fram til kynningar.
6. Erindi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
Ekki eru til nein gögn hjá heilbrigðiseftirliti Vestfjarða um efnainnhald neysluvatns á Drangsnesi og telur eftirlitið að gott væri að fá heimild til að taka ný heildarefnagreiningarsýni. Oddvita falið að kanna kostnað við sýnatöku og svara
erindinu.
7. Umsagnir til Alþingis – Samband ísl sveitarfélaga
Umsagnir Sambands ísl. sveitarfélaga um frumvörp um br. á lögum um vexti og verðtryggingu mál 561 og frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð mál 629 lagðar fram til kynningar.
8. Skjólskógar Vestfjörðum ársskýrsla og ársreikningur
Ársskýrsla Skjólskóga Vestfjarða ásamt ársreikningi fyrir árið 2014 lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn samþykkir að nýta sér þjónustu Seed sjálfboðaliða við að bera áburð á trjáræktina á Klúku og taka þátt í fæðiskostnaði vegna þeirra.
9. Fjórðungssamband – ljósleiðaramál
Fjórðungssamband Vestfjarða í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun boðar til fundar um uppbyggingu ljósleiðaranets og ríkisstyrktarreglur í Hnyðju Hólmavík 12. maí kl 15. Sveitarstjórn stefnir á að mæta á þennan fund. Sveitarstjórn samþykkir að vinna að breytingu á gildandi aðalskipulagi Kaldrananeshrepps með það að markmiði að gera ráð fyrir lagningu ljósleiðara í allt sveitarfélagið.
10. Grundargata 9-11
Parhúsið Grundargata 9 og 11 er fullbúið að innan en eftir er frágangur þakkants og lóðar. Íbúðirnar voru auglýstar til sölu eða leigu og hafa þrír aðilar falast eftir að taka þær á leigu. Ingólfur Haraldsson og Heiðrún Hjörleifsdóttir. Hermann og Þuríður Ásbjörnsdóttir f.h Malarkaffis í 3 mánuði í sumar fyrir starfsfólk Malarkaffis og Ómar Pálsson og Ingibjörg Theodórsdóttir.
Oddviti bar upp tillögu um vanhæfi Ingólfs Haraldssonar og Magnúsar Ásbjörnssonar vegna tengsla. Vanhæfistillagan samþykkt og viku þeir af fundi.
Sveitarstjórn samþykkir að gera leigusamning við Ingólf Haraldsson og Heiðrúnu um leigu á íbúðinni Grundargötu 9 og Ómar Pálsson og Ingibjörgu Theodórsdóttur um leigu á íbúðinni Grundargötu 11. Skal undirrita leigusamning eftir helgi.
11. Fundargerð Bsvest
Fundargerð Bsvest frá 24. mars s.l lögð fram til kynningar.
12. Áskorun Landshlutasamtaka
Áskorun landshlutasamtaka sveitarfélaga sem samþykkt var á vorfundi samtakanna 16. apríl s.l vegna samgögnumála lögð fram til kynningar.
13. Erindi IOGT
Barnanefnd IOGT á Íslandi tekur skýra afstöðu gegn frumvarpi um frjálsa sölu áfengis og óskar eftir því að aðilar sem vinna með einum eða öðrum hætti að hagsmunum barna geri slíkt hið sama.
14. Samantekt af samráðsfundi
Samantekt unnin af ráðgjafafyrirtækinu Alta frá samráðsfundi um sameiningarmál sem haldinn var í Tjarnarlundi 31. mars 2015 lögð fram til kynningar.
15. Hitaveitan Drangsnesi
Óskar Torfason hitaveitustjóri sendi inn erindi vegna hitaveitunnar og þess ástands sem kom upp nýverið þar sem vatn var ekki nægjanlegt og tóku dælurnar inn loft. Vill hann ítreka að gengið sé vel um heita vatnið sem ekki er ofmikið af. Kom í ljós að heita vatnið rann á fullu á bryggjunni þó enginn væri að nota það og eins hefur Sundlaugin notað óþarflega mikið vatn meðan engin yfirbreiðsla hefur verið á henni.
Búið er að setja nýja yfirbreiðsludúkinn á laugina og reynt verður að koma í veg fyrir að vatn sé látið renna viðstöðulaust á bryggjunni engum til gagns.
16. Sundlaugin á Drangsnesi
Rætt um opnunartíma sundlaugar á Drangsnesi. Oddviti leggur til að sumaropnun sundlaugarinnar verði eins og síðasta ár og hefjist sumaropnun um miðjan maí. Tillaga borin upp og samþykkt.
17. Tilboð í þrif á sparkvelli
Borist hefur tilboð í þrif á sparkvellinum kr. 205.000- Sveitarstjórn telur að ekki sé þörf á þessu á þessu ári.

Fleira ekki fyrirtekið
Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 21.50