Sveitarstjórnarfundur 12.maí 2014

Mánudaginn 12.maí 2014 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 45. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir, oddviti, Guðbrandur Sverrisson, Óskar Torfason, Sunna Einarsdóttir og Magnús Ásbjörnsson.

Oddviti setti fund kl. 20 og stýrði honum samkvæmt boðaðri dagskrá í 17 liðum. Oddviti leitar afbrigða til að taka sem 18. mál á dagskrá, bréf frá Byggðastofnun dags 6.maí s.l. Afbrigði samþykkt

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu.

Dagskrá:
1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 27. mars 2014
2. Fundargerðir nefnda
3. Ársreikningur Kaldrananeshrepps 2013 –fyrri umræða
4. Erindi um breytt fyrirkomulag grunnskóla og leikskóla
5. Bréf frá Sóknarnefnd Drangsnessóknar
6. Nýtingarleyfi fyrir hitaveitu Drangsness
7. Staðfesting á siðareglum fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórn
8. Veiðidagar í Bjarnarfjarðará
9. Undirritun kaupsamnings v Byggðasögu Stranda
10. Forkaupsréttur að hlutabréfum í Eignarhaldsfélaginu Glámu
11. Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
12. Styrkumsókn Sumarmölin
13. Styrkumsókn Skíðafélag Strandamanna
14. Fundargerðir Fjórungssambands Vestfirðinga frá 26/3,11/4 og 23/4s.l
15. Fundargerð Samgöngunenfdar FV frá 25.mars s.l
16. Fundargerðir Bsvest frá 21/3 og 23/4 s.l
17. Ársreikningur Bsvest 2013
18. Bréf frá Byggðastofnun dags 6.5.2014

Var þá gengið til dagskár.

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 27. mars 2014
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda
Fundargerð Skipulags og byggingarnefndar frá 13.1.2014. Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.
Fundargerð Skipulags- og byggingarnefndar frá 29.4.2014.Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.
Fundargerð skólanefndar frá 7. apríl 2014. Fundargerðin rædd. Varðandi 2. lið í fundargerðinni vísast til 4. liðar á dagsskrá þessa sveitarstjórnarfundar. Varðandi 3ja lið fundargerðarinnar lýsir sveitarstjórn yfir ánægju með að fá í hendur lista yfir það sem helst er talið vanta við skólann. Það auðveldar alla ákvarðanatöku í framtíðinni þegar kemur að því að forgangsraða að vita hvar helst kreppir að. Engin samþykkt gerð varðandi þetta mál enda ekki hægt að verða við öllum þeim óskum sem þar eru lagðar fram á einu bretti. 4.liður fundargerðarinnar afgreiddur athugasemdalaust.
Fundargerð skólanefndar frá 23. apríl, Oddviti upplýsti að umsækjandi um kennarastöðu dró umsóknina til baka, er búið að auglýsa aftur.

3. Ársreikningur Kaldrananeshrepps 2013 –fyrri umræða
Ársreikingurinn afgreiddur til síðari umræðu

4. Erindi um breytt fyrirkomulag grunnskóla og leikskóla
Erindi frá skólastjórum, bæði núverandi og leyfishafandi um breytingu á nýtingu mannauðs, húsakosts og almennu skipulagi í uppeldis- og menntunarstarfi í Kaldrananeshreppi. Lagt er til að leikskólinn flytjist inn í húsakynni Grunnskólans og fái til afnota kennaraíbúð og samnýti auk þess m.a inngang, fataklefa og mötuneyti með grunnskólanum. Auk þess er gert ráð fyrir að starfrækt verði mötuneyti fyrir nemendur grunnskólans.
Hugmyndina hafa þau kynnt skólanefnd s.b.r fundargerð hér fyrir framan og hefur skólanefnd lýst yfir ánægju með tillöguna.
Dagvistin hefur áður verið í umræddu húsnæði og það fyrirkomulag gekk ekki upp. Vegna þess hversu brattar tröppurnar uppí íbúðina eru var nauðsynlegt að nota sama inngang og nemendur skólans nota. Þá fannst starfsfólki skólans mikið ónæði og truflanir stafa af dagvistarbörnunum bæði hávaði og umgangur á öðrum tímum en hentaði skólastarfinu. Var reynt að verða við óskum skólans eftir föngum og halda börnunum frá ganginum og almennt að láta sem minnst í þeim heyrast. Af þessum sökum var ekki full nýting á húsnæðinu t.d ekki hægt að nota þær vistarverur sem næst skólanum voru. Þessum hugmyndum fylgir einnig töluverður árlegur viðbótarkostnaður í rekstri auk kostnaðar við flutninginn.
Í ljósi fyrri reynslu samþykkir sveitastjórn að hafna þessari tillögu.

5. Bréf frá Sóknarnefnd Drangsnessóknar
Bréf frá sóknarnefnd Drangsnessóknar þar sem lýst er yfir að áhuga á að bæta aðkomu að skólanum þ.e laga tröppur og að sett verði upp handrið til að auðvelda fólki aðgang. Þá lýsir sóknarnefnd sig reiðubúna til að samstarfs og að taka þátt í þeim kostnaði sem af hlýst.
Sveitarstjórn þakkar sóknarnefnd fyrir áhugann, og samþykkir að vera í samráði við sóknarnefndina um framkvæmd og kostnaðarskiptingu, og vísar til samþykktar á síðasta fundi sveitarstjórnar. Oddviti hefur haft samband við Ómar Pálsson hjá Grundarás ehf vegna þessara framkvæmda og er hann reiðubúinn að taka verkið að sér.

6. Nýtingarleyfi fyrir hitaveitu Drangsness.
Orkustofnun hefur með samþykkt þann 6. maí s.l gefið út leyfi til nýtingar á jarðhita til handa Hitaveitu Drangsness, í landi Drangsness í Kaldrananes-hreppi, vegna hitaveitu á dreifsvæði veitunnar. Lagt fram til kynningar.

7. Staðfesting á siðareglum fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Kaldrananeshrepps
Innanríkisráðuneyti staðfestir þann 5. maí 2014 siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Kaldrananeshreppi sem sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 27. mars s.l. Lagt fram til kynningar

8. Veiðidagar í Bjarnarfjarðará
Oddviti leggur fram tillögu um að veiðidögum Kaldrananeshrepps í Bjarnarfjarðará verði ráðstafað til íbúa sveitarfélagsins eins og verið hefur undanfarin ár. Samþykkt samhljóða.

9. Undirritun kaupsamnings v Byggðasögu Stranda
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps ítrekar fyrri samþykktir sínar um þetta mál og samþykkir að Jenný Jensdóttir oddviti Kaldrananeshrepps hafi haft fulla og ótakmarkaða heimild til undirritunar kaupsamnings og samkomulag vegna Byggðasögu Stranda sem hún gerði þann 7. maí s.l.

10. Forkaupsréttur að hlutabréfum í Eignarhaldsfélaginu Glámu
Byggðastofnun tilkynnir um sölu hlutafjár í Eignarhaldsfélaginu Glámu hf til Eignarhaldsfélagsins Hvetjanda hf kt. 510204-3790, alls 6,39% hlutafjár í félaginu að nafnvirði 20.100.000,00 á genginu 0.61194. Heildarverð er 12.300.000,- og greiðist með hlutabréfum í Hvetjanda hf. Byggðastofnun fer fram á að hluthafinn Kaldrananeshreppur falli frá forkaupsrétti sínum að hlutafénu, samþvæmt 7.gr. samþykkta félagsins.
Kaldrananeshreppur samþykkir að falla frá forkaupsrétti að umræddum hlut í Eignarhaldsfélaginu Glámu hf.og felur oddvita að undirrita samþykkt þar að lútandi.

11. Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða vegna Vatnsveitu Drangsness. Vatnssýni sem tekið var þann 10. mars s.l stóðst gæðakröfur skv. reg.nr.536/01. Lagt fram til kynningar.

12. Styrkumsókn Sumarmölin
Björn Kristjánsson sækir um styrk til Kaldrananeshrepps vegna tónlistarhátíðarinnar Sumarmalarinnar sem haldin verður í Samkomuhúsinu Baldri þann 14. júní n.k. Sveitarstjórn samþykkir að að styrkja sumarmölina um 100.000,- og hafa frítt í sundlaugina einn dag í tengslum við mölina.

13. Styrkumsókn Skíðafélag Strandamanna
Skíðafélag Strandamanna óskar eftir styrk frá Kaldrananeshreppi vegna byggingar skíðaskála á Brandsholti í Selárdal. Kostnaður er áætlaður alls rúmar 10 milljónir.
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja Skíðafélagið um 250.000 kr, með möguleika á endurskoðun síðar.

14. Fundargerðir Fjórungssambands Vestfirðinga frá 26/3,11/4 og 23/4s.l
Fundargerðirnar afgreiddar athugasemdalaust.

15. Fundargerð Samgöngunenfdar FV frá 25.mars s.l
Fundargerðirnar afgreiddar athugasemdalaust.

16. Fundargerðir Bsvest frá 21/3 og 23/4 s.l
Fundargerðirnar afgreiddar athugasemdalaust.

17. Ársreikningur Bsvest 2013
Ársreikningur Bsvest 2013 lagður fram og afgreiddur athugasemdalaust.

18. Bréf frá Byggðastofnun dags 6.5.2014
Byggðastofnun hefur ákveðið að selja hluta hlutafjár stofnunarinnar í Fiskvinnslunni Drang ehf, Eignarhaldsfélaginu Hvetjanda hf kt.510204-3790, alls 4,09% hlutafjár í félaginu að nafnvirði 1.000.000,00 á gegninu 1. Heildarkaupverð er 1.000.000,- og greiðist með hlutabréfum í Hvetjanda hf.
Byggðastofnun fer fram á að Kaldrananeshreppur sem hluthafi í Fiskvinnslunni Drang ehf falli frá forkaupsrétti sínum að hlutafénu, samkvæmt 7.gr. samþykkta félagsins. Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir samhljóða að falla frá forkaupsrétti sínum á þessu hlutafé.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundargerð lesin upp og samþykkt
Fundi slitið 22.45