Sveitarstjórnarfundur 25. nóvember 2013

Mánudaginn 25. nóvember 2013 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 40. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Guðbrandur Sverrisson, Sunna Einarsdóttir, Óskar Torfason og Magnús Ásbjörnsson. Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá í 9 liðum. 

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu.

Dagskrá.
1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 13. nóv s.l.
2. Fundargerðir nefnda
3. Tekjustofnar 2014
4. Gjaldskrárhækkanir
5. Málefni Laugarhóls ehf
6. Bréf frá Óskari Torfasyni
7. Fjárhagsáætlun 2014 fyrri umræða
8. Þriggja ára áætlun fyrri umræða
9. Kaffisamsæti

Var þá gengið til dagskrár.

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 13.nóv. sl
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda
Engar fundargerðir lágu fyrir fundi

3. Tekjustofnar 2014
Oddviti leggur fram eftirfarandi tillögu um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins fyrir árið 2014.
1. Útsvar: 14,48%, eða það hámark sem sett verður skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
2. Fasteiganskattur:
a. Íbúðarhús og frístundahús, 0,5% af fasteignamati
b. Opinberar byggingar 1,32% af fasteignamati
c. Aðrar fasteignir, 1,4% af fasteignamati.
Afsláttur vegna fasteignaskatts aldraðra 70 ára og eldri, sem og 75% öryrkja sem búa í eigin húsnæði er tekjutengdur og miðaður við árstekjur samkvæmt nýjasta skattframtali. Þar með talið eignir og fjármagnstekjur.
Gjalddagar fasteignagjalda verði 5. 1. feb,1.apríl, 1. júní, 1. ágúst og 1. október.
3. Lóðarleiga Drangsneslandi: Lóðarleiga verði 1,3% af fasteignamati lóðar.
Tillagan borin upp og samþykkt.

4. Gjaldskrárhækkanir.
Lagðar fram tillögur að gjaldskrám fyrir þjónustu sem taka eiga gildi 1. janúar 2014.
Leikskóli: 5% hækkun hver klst fari úr 149,48kr í 156,95 kr.
Systkinaafsláttur verði sá sami og áður 50% fyrir annað barn.
Drangsnesvatnsveita: Gjaldið skal vera 0,3% af gjaldstofni fasteignagjalds af eignum sem falla undir a lið og 0,4% af gjaldstofni sem falla undir b og c lið fasteignagjalda. Hámrksgjald á hverja eign skv a lið skal þó vera 14.000kr og lágmarksgjald skv a lið skal vera 10.000 kr.
Aukavatnsskattur:
a: Fiskverkun: kr 648,- fyrir hvert tonn af hráefni sem fer til vinnslu
b.Grásleppuhrognaverkun: 480 kr fyrir hverja verkaða tunnu
c. Endurgjald hafnarsjóðs vegna vatnsnotkunar kr. 800.000.-
Heimæðargjald skv reglugerð skal vera kr. 885.- fyrir hvern rúmmetra húss, miðað við utanmál.
Gjalddagar skulu vera þeir sömu og fyrir fasteignagjöld.
Gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari miðast við byggingarvísitölu 119,3 stig í desember 2013 og breytist árlega í samræmi við gildandi byggingarvísitölu.
Gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu.
A:Íbúðarhús og sumarhús í þéttbýli kr. 30.000.-
B:Lögbýli kr. 30.000.
C:Sumarhús í dreyfbýli kr.24.000,-
D. Fyrirtæki og stofnanir skiptist niður í eftirfarandi flokka
1. 35.000.-
2. 50.000.-
3. 65.000.-
4. 100.000.-
5. 170.000.-
6. 400.000.-
7. 450.000.-
Hitaveita:
Lagt er til að sala á heitu vatni hækki um 3 % og verði kr. 76,93 pr tonn
Mælagjald hækki um 5% og verði kr 57,09pr dag
Önnur gjöld hækki ekkert.
Tillögurnar bornar upp hver fyrir sig og samþykktar.

5. Málefni Laugarhóls ehf
Framkvæmdastjóri Laugarhóls Arnlín Óladóttir lagði fram á fundi með eigendum og sveitarstjórn yfirlit yfir það hvernig þróun hlutafjár í Laugarhól hefur verið frá árinu 2000. Á þessum tíma hefur komið inn aukið hlutafé og hlutur Kaldrananeshrepps hefur farið úr því að vera 86,69% í 56,33% í desember 2011. Þá er áætlað að Potemkin ehf komi inn með 3 milljónir í hlutafé í desember 2013 og þá fari hlutur sveitarfélagsins í 52%
Heildarhlutafé í félaginu var rétt rúmar 19 milljónir árið 2000 en verður í lok þessa árs tæpar 34 milljónir. Óskar framkvæmdastjóri Laugarhóls eftir samþykki sveitarfélagsins fyrir því að áframhald verði á þessari þróun þ.e að hlutafé verði aukið um a.m.k eina milljón á ári næstu árin og ef núverandi hlutahafar koma ekki inn með aukið hlutafé þá lækki þeirra hlutur hlutfallslega.
Sveitarstjórn finnst eðlilegt að hlutafjáraukning verði tekin fyrir á hluthafafundi ár hvert.
Sveitarstjórn telur mjög mikilvægt að þrátt fyrir þessa breytingu á hlutafjáreign í félaginu verði formaður stjórnar Laugarhóls ehf áfram búsettur í Kaldrananeshreppi.

6. Bréf frá Óskari Torfasyni.
Óskar Torfason leggur fram tillögu til sveitarstjórnar í bréfi dags 19. nóv 2013 um að sveitarfélagið byggi tveggja íbúða parhús á Drangsnesi til útleigu eða sölu. Sveitarfélagið leggi fram 20 milljónir til verksins og lán tekið fyrir því sem uppá vantar.
Sveitarstjórnin ákveður að skoða málið betur.

7. Fjárhagsáætlun 2014 Fyrri umræða
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 afgreidd til síðari umræði.

8. Þriggja ára áætlun 2014-2016
Þriggja ára áætlun afgreidd til síðari umræðu

9. Kaffisamsæti.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir að bjóða íbúum sveitarfélagsins til kaffisamsætis í samkomuhúsinu Baldri miðvikudaginn 27. nóvember n.k í tilefni af því að vegurinn frá Drangsnesi til Reykjavíkur er nú allur kominn með bundið slitlag.


Fundargerðin lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl 23.17