Sveitarstjórnarfundur 13. maí 2013

Mánudaginn 13. maí 2013 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 33. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Óskar Torfason, Guðbrandur Sverrisson, Sunna Einarsdóttir og Magnús Ásbjörnsson. 

Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá í 12.liðum. Oddviti leitar afbrigða til að taka sem 13. lið breytingu á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps vegna deiliskipulags á lóðum í landi Kaldrananess. og sem 14. lið bréf frá Evu Reynisdóttur. Afbrigði samþykkt.

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu.

Dagskrá.
1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 11. apríl s.l.
2. Fundargerðir nefnda
3. Bréf frá Laugarhóli
4. Bréf frá foreldrum grunnskólabarna
5. Styrkbeiðni v Sumarmalar
6. Byggðasagan Strandir
7. Fundargerð Fjórðungssambands Vestfjarða frá 30.4 s.l
8. Fundargerð Velferðarnefndar Stranda –og Reykhólahrepps
9. Skipun í þjónustuhóp aldraðra
10. Fundargerðir Byggðasamlags Vestfjarða
11. Verðmætamat á Sorpsamlagi Strandasýslu ehf
12. Fundargerð og starfsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða

Var þá gengið til dagskrár:

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 11. apríl s.l.
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi sveitarstjórnar og gerir athugasemd að ekki var bókað í 9. lið fundargerðarinnar þar sem fjallað var um Byggðasöguna Strandir að Jenný Jensdóttir hafi lýst sig vanhæfa til að fjalla um málið og hafi vikið af fundi.

2. Fundargerðir nefnda
Fundargerð skólanefndar frá 8. maí 2013.Afgreitt athugasemdarlaust.

3. Bréf frá Laugarhóli
Rekstraraðilar Hótels Laugarhóls Einar Unnsteinsson og Vigdís Esradóttir fara þess á leit við hreppsnefndina að hún veiti leyfi fyrir framkvæmd verkefnisins Áningarstaður í landi Klúku sem hannað er af Sigrúnu Birgisdóttur deildarforseta hönnunar og arkitektúr deildar Listaháskóla Íslands. Þetta verkefni er hluti af vinnusmiðju arkitektanemenda við Listaháskóla Íslands. Vinnusmiðjan felst í því að nemendur fái þjálfun í því að kanna staðhætti og huga að jákvæðri umbreytingu með léttri innsetningu í landslagið sem gefur gestum tækifæri til að upplifa náttúru og landslag frá nýju sjónarhorni. Verkið felst í því að byggja skjólpalla fyrir gesti til að njóta útsýnis í hlíðum Svörtukletta í landi Klúku. Tveir timburpallar með tvo skjólveggi vixlast til að skapa skjól fyrir annars vegar austan og sunnan átt og hins vegar vestan og norðan átt. Hlaðinn pallur úr grjóti liggur þvert á þessa palla. Létt þak er yfir.
Verkinu var lokið þegar umsókn um leyfi landeiganda fyrir framkvæmdinni barst sveitarstjórn og verkefnið hefur ekki verið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd enda vantar leyfi landeigenda. Þá eru teikningar ófullnægjandi.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps átelur það að ekki hafi verið fengið leyfi landeigenda og skipulags og byggingarnefndar, áður en hafist var handa við verkið, og lýsir furðu sinni á að .þannig vinnubrögð skulu tíðkast hjá hönnunar-og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.
En úr því sem komið er samþykkir sveitarstjórn umbeðið leyfi fyrir staðsetningu verksins í landi Klúku, og lýsir ánægju með þann áhuga sem sýndur er til að bæta aðstöðu ferðamanna á svæðinu.

4. Bréf frá foreldrum grunnskólabarna
Foreldrar grunnskólabarna á Drangsnesi fara þess á leit við sveitarstjórn í bréfi dagsettu 12. apríl 2013 að Kaldrananeshreppur taki þátt í rekstri Félagsmiðstöðvarinnar OZON á Hólmavík. Hafa krakkarnir verið að sækja félagsstarf þangað en þegar kemur að alls kyns viðburðum utan héraðs þá eru þau alltaf látin mæta afgangi vegna þess að sveitarfélagið kemur ekki nálægt rekstri félagsmiðstöðvarinnar.
Sveitarstjórn samþykkir að kanna þetta mál nánar og taka ákvðrðun þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.

5. Styrkbeiðni v Sumarmalar
Björn Kristjánsson óskar eftir styrk frá Kaldrananeshreppi til að halda uppskeruhátíð tónleikaraðarinnar Malarinnar í samkomuhúsinu Baldri þann 15. júní.
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja Mölina um 100.000,- og samþykkir að frítt verði í sundlaugina 16 júni.

6. Byggðasagan Strandir
Oddviti gerði grein fyrir fundi sveitarstjórnarmanna í Strandasýslu og Húnaþingi Vestra sem haldinn var á Hólmavík þann 7. maí s.l
Engin samþykkt liggur fyrir eftir fundinn en ákveðið að gera verk og kostnaðaráætlun fyrir byggðasöguna og þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður málið aftur tekið fyrir á fundum sveitarstjórnanna.
Lagt fram til kynningar.

7. Fundargerð Fjórðungssambands Vestfjarða frá 30.4 s.l
Fundargerðin lögð fram til kynningar

8. Fundargerð Velferðarnefndar Stranda –og Reykhólahrepps
Fundagerðin lögð fram til kynningar en varðandi málefni í öðrum lið fundargerðarinnar vísast til næsta liðar á dagskrá þessa fundar.

9. Skipun í þjónustuhóp aldraðra
Samþykkt að skipa Sigurbjörgu Halldórsdóttur í þjónustuhóp aldraðra fyrir starfssvæði Félagsþjónustu Stranda-og Reykhólahrepps og til vara Guðbrand Sverrisson.

10. Fundargerðir Byggðasamlags Vestfjarða
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11. Verðmætamat á Sorpsamlagi Strandasýslu ehf
Endurskoðunarstofa KPMG hefur unnið verðmætamat á Sorpsamlagi Strandasýslu. Matið er unnið vegna þess að Bæjarhreppur hefur sameinast Húnaþingi Vestra og vilja þeir að sveitarfélögin sem eftir eru í Strandasýslu kaupi hlut Bæjarhrepps í Sorpsamlaginu. Er það mat KPMG að raunvirði eigin fjár í Sorpsamlagi Strandasýslu ehf sé að fjárhæð 17.058.821 króna og eignarhlutir skiptast þannig Húnaþing vestra er 11,79%, Strandabyggð 64,06%, Kaldrananeshreppur 15,97% og Árneshreppur 8,17%. Eignarhlutur Húnaþings Vestra er alls 2.011.235 krónur. Eignarhlutur Kaldrananeshrepps er alls 2.724.293 krónur. Lagt fram til kynningar.

12. Fundargerð og starfsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.
Fundargerðin og starfsskýrslan lögð fram til kynningar.

13. Breytingar á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps
vegna deiliskipulagsgerðar í landi Kaldrananess þarf að gera breytingu á gildandi aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030. Um er að ræða smávægilegar breytingar á texta í greinargerð og nýtt frístundasvæði í landi Kaldrananess. Oddviti leggur fram lýsingu á skipulagsverkefninu og sveitarstjórn samþykkir að auglýsa lýsinguna.

14. Bréf frá Evu Reynisdóttur.
Bréf frá Evu Reynis þar sem hún fer þess á leyt við hreppsnefnd hvort
hægt væri að kaupa fleiri líkamsræktaræki í salinn
Sveitarstjórn tekur jákvætt í þetta og hvetur til að leitað sé styrkja sem víðast. Ákvörðun tekin síðar um framlag hreppsins.


Fleira ekki fyrir tekið
Fundargerðin lesin upp og samþykkt
Fundi slitið kl 2250