Sveitarstjórnarfundur 7. mars 2013

Fimmtudagurinn 7.mars 2013 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 31. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Óskar Torfason, Guðbrandur Sverrisson, Sunna Einarsdóttir og Magnús Ásbjörnsson. 

Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá í 17.liðum. Oddviti leitar afbrigða til að taka sem 18. lið. bréf frá leigutökum á Holtagötu 4. Afbrigði samþykkt.

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu.

Dagskrá.
1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 19.des s.l.
2. Fundargerðir nefnda
3. Fjárhagsáætlun 2013 – síðari umræða
4. Þriggja ára áætlun –fyrri umræða
5. Byggðasagan Strandir
6. Gvendarlaug hins góða
7. Félgsþjónusta Stranda og Reykhóla
8. Félag eldri borgara –styrkbeiðni
9. Verkefnið Gvendarlaug – Klúka-Vatnavinir Vestfjarða
10. Veraldarvinir
11. Eyðibýli á Vestfjörðum
12. Bláskel og byggðakvóti
13. Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðra
14. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð
15. Sóknaráætlun Vestfjarða
16. Vatnssýni
17. Héraðsbókasafn

Var þá gengið til dagskrár.

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 19. des s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda
Engar fundargerðir nefnda lágu fyrir fundi

3. Fjárhagsáætlun 2013 – síðari umræða
Fjárhagsáætlun 2013 lögð fram. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að samstæðureikningur sveitarfélagsins verði gerður upp með 5 milljón kr afgangi. Þar af skili Aðalsjóður tæplega 4,5 milljónur, Eignasjóður verði neikvæður um 230 þúsund, Hafnarsjóður neikvæður um 516 þúsund, Vatnsveits skili 223 þúsund króna hagnaði og Hitaveita skili 1,4 milljóna hagnaði. Fjárhagsáætlunin borin upp og samþykkt.

4. Þriggja ára áætlun –fyrri umræða
Þriggja ára áætlun Kaldrananeshrepps afgreidd til síðari umræðu.

5. Byggðasagan Strandir
Vísað er til afgreiðslu sveitarstjórnar á fundi hennar þann 15. nóvember 2012
Fyrir liggur tillaga að skuldauppgjöri á þeim 20 milljónum sem eftir standa af skuld Búnaðarsambandsins við Sparisjóð Strandamanna vegna Byggðasögu Stranda. Kostnaði sveitarfélganna verði skipt hlutfallslega eftir íbúatölu.
10 milljónir greiðist strax. Búnaðarsambandið greiðir 3 milljónir og 7 milljónir skiptist milli Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Húnaþings vestra v. Bæjarhrepps. Þær 10 milljónir sem eftir standa verða settar á 4 skuldabréf sem skiptast eftir íbúatölu milli sveitarfélaganna. Á móti hverju skuldabréfi gefur Sparisjóður Strandamanna út yfirlýsingu um að helmingur upprunalegs höfuðstóls verði felldur niður komi bókin út innan 3ja ára.
Jenný Jensdóttir lýsir sig vanhæfa að fjalla um málið og víkur af fundi vegna stjórnarsetu í Sparisjóði Strandamanna og tekur Guðbrandur Sverrisson varaoddviti við stjórn fundarinns.

Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps telur samkomulag um aðkomu sveitarfélaga í Strandasýslu að ritun og útgáfu Byggðasögunnar Strandir einu færu leiðina til að alt það efni sem safnað hefur verið, og þegar er til, glatist ekki og unnt verði að ljúka verkinu á sem skjótastann og ódýrastann hátt.
Sveitarstjórnin telur nauðsynlegt, áður en tekin er afstaða til yfirtöku á skuldum Byggðasögunnar Strandir við Sparisjóðinn, að kosin verði ritnefnd sem ráði ritstjóra sér til aðstoðar og fari yfir þau gögn sem til eru og geri kostnaðar og tíma áætlun fyrir þá vinnu sem eftir er til að koma bókunum út, og leggi síðan fyrir sveitastjórninar, þannig að ljóst sé hve mikill kostnaður komi til með að falla á sveitarfélögin. Að því loknu ákveði sveitarfélögin framhaldið.
Mikilvægt er að öllum gögnum sem tilheyra byggðasögunni verði skilað, þar á meðal skólasögunum ( Heydalsárskólans Drangsnesskóla og Finnbogastaðarskóla).

Jenný Jensdóttir kemur aftur inn á fundinn.

6. Gvendarlaug hins góða
Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða óskar eftir heimild hreppsnefndar til að steypa hlífðarkápu utan um vestur- og suðurhlið laugarinnar og að endurnýja þær lagnir sem þar eru. Þá óskar Hollvinafélagið eftir fjárstuðningu sveitarfélagsins til verksins þannig að ljúka megi þessum áfanga með sóma og hefja undirbúning að næsta stóra verki þ.e hleðslu eða öðrum frágangi á veggjunum. Þrátt fyrir að reiknað sé með töluverðri sjálfboðavinnu við vinnuna kemur þetta verk til með að kosta töluverða peninga.
Hreppsnefnd Kaldrananeshrepps þakkar þann hlýhug og velvilja sem Hollvinasamtök Gvendarlaugar hins góða hafa sýnt bæði í orði og verki við viðhald sundlaugarinnar. Hreppsnefnd samþykkir að veita Hollvinasamtökum Gvendarlaugar hins góða heimild til að steypa hlífðarkápu utan um vestur- og suðurhlið laugarinnar og að endurnýja þær lagnir sem þar eru. Hreppsnefnd samþykkir að leggja fram 700.000,- krónur til þessa verks.

7. Félgsþjónusta Stranda og Reykhóla
Nýlega var samþykkt í þremur af fjórum sveitarfélögum sem mynda Félagsþjónustuna þátttaka í tilraunaverkefninu “Iðja”. Félagsmálastjóri fer fram á að þar sem Árneshreppur tekur ekki þátt í verkefninu samþykki hin sveitarfélögin að taka á sig þá aukningu sem það veldur eða alls kr. 204.000.- Það gerir alls tæpar 24 þúsundir á Kaldrananeshrepps. Sveitarstjórnin samþykkir að borga aukninguna.

8. Félag eldri borgara –styrkbeiðni
Félag eldri borgara í Strandasýslu óskar eftir rekstrarstyrk vegna ársins 2013.
Samþykkt að styrkja félagið með 40.000.- krónum.

9. Verkefnið Gvendarlaug – Klúka-Vatnavinir Vestfjarða
Hótelhaldarar á Laugarhóli hafa sótt um styrk frá Ferðamálaráði vegna undirbúnings hönnunar á skipulagi og aðstöðu allri á jörðinni Klúku þ.e Hótelinu, sundlauginni og Galdrasafninu. Óska þau eftir samþykki Kaldrananeshrepps sem landeiganda til verksins. Þá óska þau jafnframt eftir fjárstuðningu hreppsins til þessarar undirbúningsvinnu en fái þau styrkinn frá Ferðamálaráði verða þau að standa skil á jafnmiklu mótframlagi og styrkurinn er. Þau sækja um 2ja milljóna króna styrk til Ferðamálráðs og mótframlag þeirra er því a.m.k 2 milljónir sem sem þarf að reiða fram bæði með vinnuframlagi og peningum.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps heimilar þeim sem landeigandi að vinna að undirbúningi að hönnun á landi jarðarinnar Klúku, og einnig að styrkja verkefnið um 300.000,- kr.

10. Veraldarvinir
Bréf frá Veraldarvinum. Þau bjóða fram sjáflboðaliða sína til vinnu við hin ýmsu verk. Þarf að sjá þeim fyrir fæði og húsnæði. Til að þessi vinna veraldarvina nýtist þarf að vera til staðar fjölhæfur og góður verkstjóri og vel skilgreind verk til að vinna. Sveitarstjórn samþykkir að taka ekki veraldarvini að þessu sinni.

11. Eyðibýli á Vestfjörðum
Áhugamannafélagið Eyðibýli á Íslandi óskar eftir stuðningi sveitarfélagsins við verkefnið Eyðibýli á Íslandi að upphæð 50.000 krónur til að mæta hluta kostnaðar rannsakenda í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn samþykkir að hafna þessari styrkbeiðni.

12. Bláskel og byggðakvóti
Bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti dags 1. mars lagt fram til kynningar.

13. Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðra
Lögð fram skýrsla um úttekt og úrbótaáætlun fyrir Byggðasamla Vestfjarða um málefni fatlaðs folks sem unnin var afa Capasent Gallup.

14. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð
Fundargerð Heilbrigðiseftirlits vestfjarða lögð fram og afgreidd athugasemdalaust. Þá var ársreikningur Heilbrigðiseftirlitsins lagður fram og samþykktur.
15. Sóknaráætlun Vestfjarða
Tillögur að skiptingu fjármagns varðandi sóknaráætlun Vetfjarða 2020 lögð fram til kynningar

16. Vatnssýni
Bréf frá Heilbrigðiseftirliti vestfjarða vegna vatnssýnis hjá Vatnsveitu Drangsnes. Vatnssýnið stóðst gæðakröfur.

17. Héraðsbókasafn
Bréf frá Jóni Jónssyni f.h Héraðsnefndar Strandasýslu varðandi málefni Héraðsbókasafns Strandasýslu. Kemur fram hjá Jóni að málefni Héraðsbókasafns Strandasýslu sé eitt af þeim málum sem þurfi að færa frá Héraðsnefndinni til sveitarfélaganna sjálfra verði Héraðsnefndin lögð niður en ekki er gert ráð fyrir rekstri sérstakrar héraðsnefndar í sveitarstjórnarlögum og þarf samvinna um héraðsbókasafn annað hvort að byggjast á samningi milli sveitarfélaga eða að stofnað verði byggðasamlag um reksturinn. Héraðsbókasafnið hefur fengið árlegt rekstrarframlag frá Héraðsnefnd og var það 500 þúsund síðustu árin en ekki var ákveðið neitt framlag 2012.
Óskað er eftir að sveitarfélögin í Strandasýslu taki við málefnum Héraðsbókasafns Strandasýslu frá Héraðsnefnd Strandasýslu og geri með sér samstarfssamning um fyrirkomulag í framtíðinni.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsir sig jákvæða til að ganga til samstarfs með hinum sveitarfélögunum.

18. Bréf frá Birnu Hjaltadóttur og Birni Kristjánssyni leigutökum Holtagötu 4, varðandi frágang á lóðinni.
Birna og Björn fara fram á að gengið verið frá lóðinni og smíðaður verið pallur við suður og vesturhlið hússins.
Oddvita falið að sjá um að koma þessari beiðni í framkvæmd.


Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 23.40