Sveitarstjórnarfundur 15. nóvember 2012

Fimmtudaginn 15. nóvember 2012 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 29. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Óskar Torfason, Guðbrandur Sverrisson, Sunna Einarsdóttir og Magnús Ásbjörnsson. Oddviti leitar afbrigða til að taka sem 6. mál á dagskrá Mál vegna ýsukvóta Afbrigði samþykkt.

Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá.

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu.

Dagskrá.

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 5. nóv s.l.
2. Fundargerðir nefnda
3. Fjárhagsáætlun 2013 – fyrri umræða
4. Byggasagan Strandir
5. Tekjustofnar Kaldrananeshrepps fyrir árið 2013

Var þá gengið til dagskrár.

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 5. nóv s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda
Engar fundargerðir nefnda lágu fyrir fundi

3. Fjárhagsáætlun 2013 fyrri umræða
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 lögð fram og afgreidd til næsta fundar.

4. Byggðasagan Strandir
Matthías Lýðsson fyrir hönd Búnaðarsambands Strandamanna óskar eftir því í bréfi dags 5. nóvember s.l að sveitarfélög í Strandasýslu og nú einnig Húnaþing Vestra f.h fyrrum Bæjarhrepps taki að sér verkið Byggðasagan Strandir og þar með uppgjör skulda og áframhald söguritunar.
Byggðasagan Strandir hefur verið í ritun frá árinu 1980 og árið 1985 kom út bókin Strandir 2, félagasaga sýslunnar undir ritstjórn Lýðs Björnssonar. Árið 1996 tók Jón Jónsson frá Steinadal við umsjón með sögurituninni. Síðustu ár hefur lítið gerst vegna þess að engir fjármunir hafa fengist til að greiða fyrir nauðsynlega vinnu.
Það var tap á útgáfu bókarinnar Strandir 2 og eftir að hún kom út fengu ritstjórar greitt fyrir vinnuframlag, en um og eftir árið 2000 hafa útgreiðslur nær engar verið. Innkoma hefur og verið sáralítil og hefur gengið að mestu upp í skuldir. Með vöxtum og vaxtavöxtum eru skuldir vegna byggðasögunnar nú yfir fimmtíu milljónir króna.
Búnaðarsamband Strandamanna og Sparisjóður Strandamanna hafa náð samkomulagi um að skuldir verði gerðar upp þannig: strax verði greiddar 10 milljónir, aðrar 10 milljónir fari á vaxtalaust biðlán. Komi bókin út innan 3ja ára veitir Sparisjóður Strandamanna styrk að upphæð 5 milljónir sem dregst þá frá biðláninu. Aðrar núverandi skuldir við Sparisjóðinn verða felldar niður.
Þær skuldir sem óskað er eftir að sveitarfélögin taki að sér að greiða eru þessar 10 milljónir sem eiga að greiðast strax. Og að auki allur kostnaður sem til fellur við að koma bókinni í prentun og sölu.
Sveitarstjórn tekur jákvætt í verkefnið, en frestar ákvarðanatöku þar til síðar. Oddvita falið að ræða við Magnús Rafnsson á Bakka um ritun sögu Klúkuskóla.

5. Tekjustofnar Kaldrananeshrepps fyrir árið 2013
Oddviti leggur fram eftirfarandi tillögu um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins fyrir árið 2013.
1. Útsvar: 14,48%
2. Fasteiganskattar
a. Íbúðarhús, 0,5% af fasteiganmati
b. Opinberar byggingar, 1.32% af fasteignamati
c. Aðrar fasteignir, 1,4% af fasteignamati
Afsláttur vegna fasteignaskatts aldraðra, 70 ára og eldri, sem og 75% öryrkja, sem búa í eigin húsnæði er tekjutengdur og miðaður við árstekjur samkvæmt nýjasta skattframtali, þar með talið eignir og fjármagnstekjur.
Gjaldagar fasteignagjalda verði 5 talsins 1. febr, 1. aprl, 1 júní, 1. ág og 1. okt.
3. Lóðarleiga Drangsneslandi: Lóðarleiga verði 1,3% af fasteignamati lóðar.
4. Sorpgjald: Sorpgjald verði í samræmi við samþykkta gjaldskrá.
5: Vatnsskattur: Vatnsgjald verði í samræmi við samþykkta gjaldskrá.
6: Fráveitugjald: Holræsa og rotþróargjald verði samkvæmt samþykktri gjaldskrá.
7. Leikskóli: Leikskólagjald hækki um 5% frá því sem nú er.
Tillagan samþykkt samhljóða.

6. Mál vegna ýsukvóta.
Óskar Torfason lagði fram eftirfarandi tillögu.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir að senda eftirfarandi ályktun til atvinnuvega-og nýsköðunarráðuneytis. Afrit send alþingismönnum norðvesturkjördæmis.
“ Sjósókn frá Drangsnesi og öllu norðanverðu landinu er nú nær útilokuð þar sem ýsa er í miklum meirihluta þess afla sem veiðist á línu og í dragnót báta sem stunda veiðar á þessu svæði, og gerir mönnum ómögulegt að ná kvóta sínum í öðrum tegundum, þrátt fyrir að sjómenn reyni allt til að forðast hana. Engan ýsukvóta er að fá þar sem ýsukvótinn er svo lítill og í engu samræmi við þá miklu ýsugengd sem hér er og lýsum við yfir miklum efasemdun með ráðgjöf Hafrannsóknunarstofnunar og skorum á ráðherra sjávarútvegsmála að láta nú þegar fara yfir ráðgjöf stofnunarinnar varðandi mælingar á ýsustofninum og samráð verði haft við sjómenn.
Nú eiga sjómenn ekki nokkurn kost á að halda bátum sínum til veiða á þessu svæði og kemur það harkalega niður á allri atvinnu og afkomu fólka og fyrirtækja á Drangsnesi, Hólmavík og öllu norðanverðu landinu.”

Tillagan samþykkt samhljóða

Fundargerðin lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl 22.15