Sveitarstjórnarfundur 17. október 2012

Miðvikudagur 17.október 2012 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 27. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Óskar Torfason, Guðbrandur Sverrisson, Sunna Einarsdóttir og Magnús Ásbjörnsson. 

Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá.

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu.

Dagskrá.

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 19.sept s.l
2. Fundargerðir nefnda
3. Reglur um afslátt á fasteigangjöldum 2013
4. Gjaldskrá Hitaveitu Drangsness 2013
5. Gjaldskrá sorphirðu 2013
6. Bréf frá Landsambandi hestamanna
7. Bréf frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti
8. Ársreikningur Fiskvinnslunnar Drangs ehf
9. Fyrirspurn um málstefnu sveitarfélagsins
10. Kjörskrá fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þ.20.október n.k

1. Fundargerðir sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 19. sept s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda
a. Fundargerð Skipulags- og byggingarnefndar frá 9. okt s.l.
Fundargerðin sem er í 6 liðum yfirfarin og afgreidd athugasemdalaust fyrir utan lið nr. 6 sem beint er til sveitarstjórnar. Hvetur nefndin sveitarstjórn til að hefja vinnu við uppsetningu gjaldskrár vegna byggingarleyfisgjalda og bendir á að hafðar verði til hliðsjónar gjaldskrár nágrannasveitarfélaga. Sveitarstjórn samþykkir að vinna að gerð gjaldskrár fyrir byggingarleyfisgjöld.. Samþykkt að Jenný Jensdóttir og Guðbrandur Sverrisson vinni gjaldskrána.

b.Fundargerð Velferðarnefndar Stranda og Reykhólahrepps frá 10.10
Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.

3. Reglur um afslátt á fasteignagjöldum 2013
Oddviti leggur til að eftirfarandi reglur um afslátt á fasteignaskatti gildi í sveitarfélaginu á árinu 2013.

1. 70 ára og/ eða 75% örorkulífeyrisþegar með lögheimili og búsetu í Kaldrananeshreppi njóta afsláttar af fasteignaskatti. Sækja þarf um afsláttinn til skrifstofu hreppsins.
2. Afslátturinn er tekjutengdur og miðaður við árstekjur samkvæmt nýjasta skattframtali þar með talið eigna og fjármagnstekjur.
3. Skilyrði fyrir afslætti er að viðkomandi búi sjálfur í húsnæðinu og hafi ekki af því leigutekjur.
4. Við ákvörðun afsláttar skulu notaðar eftirfarandi viðmiðanir
Einstaklingar
Tekjur kr. Afsláttur
Allt að 2.000.000 100%
Allt að 2.200.000 75%
Allt að 2.400.000 50%
Allt að 2.600.000 25%

Hjón/Sambýlisfólk
Tekjur kr. Afsláttur
Allt að 3.300.000 100%
Allt að 3.600.000 75%
Allt að 3.900.000 50%
Allt að 4.200.000 25%

Ekki er veittur afsláttur af þjónustugjöldum svo sem vatnsskatti, fráveitugjaldi eða sorpgjaldi.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt.
4. Gjaldskrá Hitaveitu Drangsness 2013
Oddviti leggur fram tillögu ásamt útreikningum að 5% hækkun á heitu vatni frá Hitaveitu Drangsness og 10% hækkun á mælagjaldi.Tillagan samþykkt samhljóða.
5. Gjaldskrá v. sorphirðu 2013
Oddviti leggur fram tillögu að gjaldskrá fyrir sorphirðu árið 2013.
Gjaldskárin hækki um 13,65% frá síðasta ári. Íbúðarhús og lögbýli í hreppnum ásamt sumarhúsum í þéttbýli greiði kr. 25.000.- pr. ár og sumarhús í dreifbýli greiði 18.000.- Fyrirtæki, stofnanir og aðrir lögaðilar greiða sorphirðugjald fyrir hverja starfsstöð fyrirtækisins samkvæmt áætlun um kostnað við sorphirðu og eyðingu frá þeim er miðist við áætlað magn úrgangs. Lágmarksgjald er kr. 28.000. pr ár. Gjaldskráin samþykkt samhljóða.
6. Bréf frá Landssambandi hestamanna
Landsamband Hestamann óskar eftir styrk frá sveitarfélaginu kr. 100.000.- á ári á næstu 4 árum vegna skráningar á reiðleiðum í kortasjá. Sveitarstjórnin hafnar þessari styrkbeiðni.
7. Bréf frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Borist hefur frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti dags. 25.9.2012 svar við erindi frá Kaldrananeshreppi frá 14. júni 2011 þar sem Kaldrananeshreppur óskar eftir undanþágu frá ákvæðum um laugargæslu sbr. 2. mgr. 11 gr. reglugerðar nr.814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum hvað varðar fjölda starfsmanna á vakt við sundlaugina á Drangsnesi. Ráðuneytið hefur breytt umræddri reglugerð á þann veg að við almenningslaugar allt að 25 x 12,50metrar er á ákveðnum tímum heimilt að laugarvörður sinni öðrum störfum samhliða laugarvörslu ef vakt og afgreiðsla er í sama rými og yfirsýn úr rýminu er með þeim hætti að auðvelt er að fylgjast með gestum í laug um leið og afgreiðsla fer fram. Heimildarákvæði þetta á einungis við um laugar þar sem gestafjöldi í laug er að að meðaltali undir 10 gestum á ársgrundvelli á þeim tíma dags sem um ræðir.
Af þessu leiðir að ráðuneytið mun ekki taka undanþágubeiðnina til afgreiðslu.
8. Ársreikningur Fiskvinnslunnar Drangs ehf.
Aðalfundur Fiskvinnslunnar Drangs ehf verður haldinn mánudaginn 22 okt nk. og frestast þessi liður þar til ársreikningurinn hefur verið tekinn fyrir á fundi og afgreiddur.
9. Fyrirspurn um málstefnu sveitarfélagsins.
Innanríkisráðuneyti sendir inn fyrirspurn til sveitarfélagsins hvort og þá með hvaða hætti sveitarfélagið hefur uppfyllt lagaákvæði um málstefnu sveitarfélaga eins og kveðið er á um í 130 gr sveitarstjórnarlaga nr.138/2011.Sveitarstjórn hefur ekki hafið vinnu við gerð málstefnu fyrir sveitarfélagið, og enn um sinn mun Íslenska vera aðalmálið á sveitarstjórnarfundum.
10. Kjörskrá fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012
Sveitarstjórn hefur farið yfir kjörskrárstofn fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna og felur oddvita að undirrita kjörskrána.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt
Fundi slitið kl 21.40