Sveitarstjórnarfundur 3. nóvember 2010

Miðvikudaginn 3. nóvember 2010 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 5. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Jenný Jensdóttir oddviti, Óskar Torfason, Magnús Ásbjörnsson, Guðbrandur Sverrisson og Sunna Einarsdóttir.

Oddviti setti fund kl 20 og stýrði honum samkvæmt boðari dagsskrá í 9 liðum.
Oddviti leitar afbrigða til að taka á dagskrá sem 10 lið bréf frá fjórðungssambandi Vestfirðinga dags 28.10 s.l Afbrigði samþykkt.

Fundargerð ritar Sunna Einarsdóttir á tölvu

Dagskrá:
1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 13. okt s.l
2. Fundargerðir nefnda
3. Þáttaka í stefnumótun í ferðaþjónustu
4. Umsögn til skipulagsstofnunar vegna Strandavegar
5. Kosning fulltrúa í sameiginlega félagsmálanefnd
6. Bréf frá Umst vegna refaveiða
7. Bréf frá Umhverfisráðuneyti dgs 25.10
8. Kosningar til stjórnlagaþings
9. Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn

Var þá gengið til dagskrár.

1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 13. okt s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi

2. Fundargerðir nefnda
Engar fundargerðir nefnda liggja fyrir fundi

3. Þáttaka í stefnumótun í ferðaþjónustu
Bréf frá Viktoríu Ólafsdóttur dags 27.10 s.l til að kanna áhuga sveitarfélagsins á að taka þátt í stefnumótun í ferðaþjónustu eða atvinnumálum í heild ásamt Strandabyggð, Árneshreppi og Reykhólahreppi. Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir.
Sveitarstjórn hefur áhuga á að koma að þessu verkefni ef kostnaðurinn fer ekki fram úr hófi.

4. Umsögn til skipulagsstofnunar vegna Strandavegar.
Eftirfarandi umsögn hefur verið send til Skipulagsstofnunar.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps telur að framkvæmdin Strandavegur(643)-Geirmundastaðarvegur skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum sbr. 6.gr laga nr. 106/2000 og 11gr.rgl. Nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmd þessi er einungis 2,3 km og þar af 0,4 km á núverandi vegsvæði. Þrátt fyrir að þessi veglagning komi til að raska fjöruborði við Grænanes og Stakkanes ásamt því að lítill hluti þessara 1,9 km þveri áreyra Staðarár þá telur sveitarstjórn Kaldrananeshrepps þetta vera í raun einu færu leiðina til að tryggja öruggar samgöngur allt árið fyrir þá íbúa Strandasýslu sem búa norðan við vegamótin í Staðardal og aðra þá sem um þetta svæði ferðast.

Telur sveitarstjórn Kaldrananeshrepps að til að gera núverandi vegsvæði jafn öruggt og snjólétt og fyrirhuguð veglína sem Vegagerðin leggur hér til þyrfti að koma til það mikil röskun á landi Grænaness að ekki væri hægt að fallast á þá framkvæmd.

5. Kosning fulltrúa í sameiginlega félagsmálanefnd
Kosinn fulltrúi í sameiginlega félagsmálanefnd Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Reykhólahrepps.
Sveitarstjórn samþykkir að Jenný Jensdóttir verði fulltrúi Kaldrananeshrepps, og Sigurbjörg Halldórsdóttir til vara.

6. Bréf frá Umst vegna refaveiða
Umhverfisstofnun vill með bréfi dags 11.10.2010 vekja athygli sveitarstjórnar á að í frumvarpi til fjárlaga 2011 er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til endurgreiðslu kostnaðar sveitarfélaga vegna refaveiða.Sveitarstjórn samþykkri að senda eftirfarandi bréf.

Til Umhverfisráðherra

Kaldrananeshreppur hefur móttekið bréf Umhverfisstofnunar þar sem vakin er athygli sveitarfélaga á að í frumvarpi til fjárlaga 2011 er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til endurgreiðslu vegna refaveiða en samkvæmt lögum nr.64/1994 er endurgreiðsla háð því að fjármunir til þess fáist í fjárlögum. Samkvæmt því verði engar endurgreiðslur vegna refaveiða á árinu 2011.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps telur afar misráðið að hætta endurgreiðslum vegna refaveiða nú þegar refastofninn er í gríðarlegri uppsveiflu og vitað er að refir eru í verulegum mæli farnir að valda tjóni í náttúrunni ásamt því að valda miklum búsifjum hjá æðar og sauðfjárbændum í landinu varla þarf að mynna á nýjar fréttir víða af landinu þar sem refir hafa murkað líf úr lömbum jafnt í úthaga sem á kálökrum heima við bæi og hvetjum við ráðherra jafnt sem ráðgjafa að kynna sér aðfarirnar þegar ekki stærra dýr en refur ræðst á og drepur sér margfalt stærra dýr sem þó á sér sjaldan lífsvon eftir viðureignina, í því tilviki vegur dýravernd margfalt á við krónur og aura hjá þeim sem einhvern skilning hafa á kvölum og ótta.
Við mynnum einnig á grein Páls Hersteinssonar prófessors við HÍ. í Morgunblaðinu 24 nóv. 2009 þar sem hann bendir á að refastofninn hefur tífaldast á 30 árum. Vegna orða Páls um áhrif fjölgunar refa á fuglastofna í sömu grein þá bendum við á að á sama tíma hefur rjúpnastofninn hrunið og litlu hefur skilað að setja takmarkanir á veiði rjúpnaskyttna , líka var grágæsastofninn settur á válista 2, einnig má benda á að nánast á sama tíma hefur embætti veiðistjóra verið í höndum líffræðinga
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps hvetur því til endurskoðunar á frumvarpi til fjárlaga og skorar á ríkisstjórnin Íslands að setja inn í fjárlög sambærilega eða hærri upphæð og undanfarin ár


7. Bréf frá Umhverfisráðuneyti dags. 25.10.10
Svar hefur borist frá Umhverfisráðuneyti vegna erindis Kaldrananeshrepps um frest við gerð aðalskipulags sbr. 2 tl bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggignarlaga nr. 73/1997 en frestur sem sveitarfélög höfðu rann út 22. janúar s.l. Umbeðinn frestur hefur verið veittur til eins árs.

8. Kosningar til stjórnlagaþings.
Bréf frá þjóðskrá dags. 20.10.2010 varðandi kosningar til stjórnlagaþings lagt fram til kynningar.

9. Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn
Samband ísl sveitarfélaga í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga auglýsa námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn sem verður haldið á Ísafirði föstudaginn 19. nóvember n.k.

10. Bréf frá Fjórungssambandi Vestfirðinga dags. 28.10.2010
Stjórn FV óskar eftir að sveitarfélagið skipi 2 fulltrúa í starfshóp um svæðisskipulagsgerð fyrir Vestfirði
Sveitarstjórn samþykkir að skipa Finn Ólafsson og Halldór Loga Friðgeirsson í starfshópinn og til vara Jenný Jensdóttur og Óskar Torfason.


Fundargerðin lesin upp og samþykkt
Fundi slitið kl. 22.00