Sveitarstjórnarfundur 18. maí 2010

Þriðjudaginn 18. maí 2010 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 36. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

Fundinn sátu sveitarstjórnarmennirnir Óskar Torfason, Halldór Logi Friðgeirsson í fjarveru Haraldar Ingólfssonar og Jenný Jensdóttir, Guðbrandur Sverrisson og Sunna Einarsdóttir sem ritar fundargjörð.á tölvu.

Oddviti, Jenný Jensdóttir setti fund kl. 20 og stjórnaði honum skv. boðaðri dagskrá í 9 liðum.

Dagskrá.
1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 19. apríl s.l
2. Fundargerðir nefnda
3. Ársreikningur Kaldrananeshrepps v 2009 fyrri umræða
4. Bréf frá Friðgeiri Höskuldssyni
5. Bréf frá Steinari Þór Baldurssyni
6. Sparkvöllurinn
7. Fundargerð Heilbrigðisnefndar frá 16.4 s.l
8. Þátttaka Kaldrananeshrepps í Byggðasamlagi með dreifðri þjónustu á Vestfjörðum
9. Kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí 2010

Var þá gengið til dagskrá

1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 19. apríl s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda
Engar fundargerðir lágu fyrir fundi

3. Ársreikningur Kaldrananeshrepps v 2009 fyrri umræða
Ársreikningurinn lagður fram og ræddur. Afgreiddur til næsta fundar.

4. Bréf frá Friðgeiri Höskuldssyni.
Halldór Logi Friðgeirsson vék af fundi vegna vanhæfis.

Friðgeir Höskuldsson ritar sveitarstjórn bréf dags. 5. maí vegna tillagna sjávarútvegs- og landbúnaðarmálaráðherra um takmarkanir á dragnótaveiðum. Vill Friðgeir með bréfinu vekja athygli sveitarstjórnar á málinu og hvernig það kemur við útgerð hans og annarra útgerða sem héðan gera út. Málið rætt og eftirfarandi umsögn vegna fyrirhugaðra takmarkana á dragnótaveiðum í Húnaflóa samþykkt.

„Dragnótaveiðar hafa verið stundaðar í Húnaflóa um áratugi og hafa þær gengið ágætlega og án árekstra við þá útgerðaraðila sem stunda veiðar með önnur veiðarfæri á sömu veiðislóðum. Á reynslu þessara ára er ljóst að þau veiðisvæði í Húnaflóa, þar sem veiðar með dragnót hafa verið stundaðar, hafa ávallt verið mjög gjöful og ekkert sem bendir til þess að veiðarnar hafi haft neikvæð áhrif á lífríkið.

Mikilvægt er, þegar verið er að fjalla um fiskveiðar við Ísland, að allar ákvarðanir sem teknar eru varðandi fiskveiðar séu byggðar á vísindalegum forsendum. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum veiða með dragnót og ekkert bendir til þess að veiðar með dragnót skaði lífríki sjávar. Vill sveitarstjórn Kaldrananeshrepps vekja athygli á niðurtöðum rannsóknar Hafrannsóknastofnunarinnar á áhrifum dragnótaveiða í Skagafirði, sem birtar voru í nóvember s.l. Niðurlagsorð ágrips skýrslunnar eru þessi: “Þær niðurstöður sem fengust í þessari rannsókn benda ekki til að dragnótin hafi áhrif á botndýralíf í Skagafirði.”

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps vill árétta að þegar verið er að ræða um takmarkanir sem þessar, að fullt samráð sé haft við hagsmunafélag dragnótamanna og þeirra þekking og sjónarmið komi fram áður en slíkar ákvarðanir eru teknar. Það að loka einstaka svæðum þarf að byggjast á faglegum rökum, en ekki tilfinningum. Þannig mun okkur vegna best að ganga um okkar mikilvægu auðlindir.

Dragnótaveiðar eru mikilvægur þáttur í fiskveiðum í Kaldrananeshreppi. Þá er einnig með þessu banni verið að útiloka nýtingu og veiðar á innfjarðarrækju þegar rækjan snýr aftur á sín fyrri veiðisvæði. Við Húnaflóa hafa menn stundað veiðar með blandaðri sókn um áratugi, án mikilla vandræða. Ljóst er að á þeim veiðisvæðum þar sem dragnótaveiðar eru stundaðar, er mjúkur botn og er því veiðarfærið ekki að brjóta niður né eyðileggja lífríkið.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps mótmælir harðlega framlögðum tillögum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um takmarkanir á dragnótaveiðum, sem munu skaða mjög atvinnustarfssemi í Kaldrananeshreppi.

5. Bréf frá Steinari Þór Baldurssyni
Steinar Þór óskar eftir leyfi sveitarstjórnar til að stækka Skarðsgirðinguna.
Sveitarstjórn samþykkir að veita Steinari Þór umbeðið leyfi.

6. Sparkvöllurinn.
Oddviti leggur til að sparkvellinum verði snúið og hann látinn ná niður á leikvallarsvæðið og leikvöllurinn færður upp fyrir skólann. Tillagan felld með þremur greiddum atkvæðum.
Óskar Torfason leggur fram svohljóðandi tillögu. “Sparkvöllurinn verði staðsettur á skólalóðinn eins og umgetur í grendarkynningu dags 24. febr 2009. Og að girt verði á lóðarmörkum Grunnskólans og Aðalbrautar 12 og 16, með netgirðingu sambærilegri og við sundlaugarbygginguna. Og að hafist verði handa við framkvæmdina í næstu viku.”
Tillagan borin upp og samþykkt með þremur greiddum atkvæðum. Enginn greiddi atkvæði á móti.

7. Fundargerð Heilbrigðisnefndar frá 16.4 s.l
Fundargerð Heilbrigðisnefndar frá 16.4 s.l lögð fram og afgreidd athugasemdalaust.

8. Þátttaka Kaldrananeshrepps í Byggðasamlagi með dreifðri þjónustu á Vestfjörðum
Fyrir fundi liggja tillögur starfshóps Fjórungssambands Vestfjarða vegna tilflutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót.
Niðurstaða starfshópsins er að leggja til við vestfirsk sveitarfélög ;
• að stofnað verði til byggðasamlags með dreifðri þjónustu
• að ráðin verði verkefnistjóri til að sjá um skipulag og framkvæmd á tilflutningi málefna fatlaðra á Vestfjörðum.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir á fundi sínum þann. 18. maí 2010 að ganga til samstarfs við önnur sveitarfélög á Vestfjörðum um að stofnað verði byggðasamlag með dreifðri þjónustu. Þá samþykkir sveitarstjórn að ráðinn verði verkefnisstjóri til að sjá um skipulag og framkvæmd á tilflutningi málefna fatlaðra á Vestfjörðum.
Tillagan samþykkt samhljóða.

9. Kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí 2010
Kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar yfirfarin og samþykkt að leggja hana fram.


Fleira ekki fyrir tekið
Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 22.10