Sveitarstjórnarfundur 5. nóvember 2008

Miðvikudaginn 5. nóvember 2008 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 23. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

Fundinn sátu sveitarstjórnarmennirnir Jenný Jensdóttir, Sunna Einarsdóttir, Óskar Torfason, Haraldur Ingólfsson og Guðbrandur Sverrisson

Oddviti, Jenný Jensdóttir setti fund kl. 20.
og stýrði honum samkvæmt áður boðaðri dagskrá í 11 liðum.


Dagskrá:

1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 3. sept s.l
2. Fundargerðir nefnda
3. Heitavatnsborun að Klúku.
4. Tilboð í refahús
5. Bréf frá Bjarna Ómari Haraldssyni.
6. Umsagnir um rekstararleyfi
7. Bréf frá fræðslumiðstöð Vestfjarða
8. Áherslur v. fjárhagsáætlunar 2009
9. Minnisp. frá samráðsfundum SA,ASÍ og fl v. fjármálakreppu
10. Bréf frá KSÍ
11. Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna


1. Fundargerð sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 3. sept s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda.
Fundargerð skólanefndar frá 21. október s.l
Fundargerðin afgreidd athugasemdarlaust.

3. Heitavatnsborun að Klúku
Tilboð í borun bárust frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða og frá Vatnsborun ehf. Einnar milljóna munur var á tilboðunum og var því lægra tekið frá Vatnsborun ehf en það hljóðar upp á kr. 5.635.000.-
Borholan er rétt ofan og innan við sundskýlin. Borun er lokið og er árangur eins og vonir stóðu til. Sjálfrennandi upp úr holunni eru 16 sekúndulítrar af rúmlega 49 stiga heitu vatni.

4. Tilboð í refahús.
Guðjón Sigurgeirsson, Heydalsá gerir tilboð í refahúsið að Klúku. Tilboðið gerir ráð fyrir að Guðjón taki niður refahúsið, eignist það sem hann telur nýtilegt og fargi öðru. Hylur grunnveggi með efni úr mel sem hjá því stendur. Kaldrananeshreppur sjái um að létta af kvöðum ef einhverjar eru og afla leyfa til niðurrifs og efnistöku ef með þarf. Engin peningagreiðsla komi fyrir refahúsið.
Sveitarstjórn samþykkir að hafna þessu tilboði.

5. Bréf frá Bjarna Ómari Haraldssyni..
Bjarni Ómar tónlistarmaður sendir sveitarstjórn Kaldrananeshrepps þakkarbréf fyrir veittan stuðning.

6. Umsagnir um rekstrarleyfi.
Sýslumaður á Hólmavík leitar eftir umsögnum um umsóknir um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007.
A. Umsögn vegna umsóknar Ásbjörns Magnússonar fh Á.V.M útgerð ehf vegna reksturs gistiskála að Grundargötu 17 Darngsnesi.
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leiti að umrætt rekstrarleyfi verði veitt.
B. Umsögn vegna umsóknar Matthíasar Jóhannsonar fh Klúkuveitinga ehf um endurnýjun rekstrarleyfis til handa Klúkuveitingum ehf vegna reksturs hotels og veitingarstaðarins Hótel Laugarhóls.
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leiti að umrætt rekstrarleyfi verði endurnýjað.

7. Bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða.
Fræðslumiðstöð vestfjarða vill kynna 95 stunda námskeið samkvæmt námskránni Aftur í nám sem er að fara af stað á Ströndum. Námskráin er einkum ætluð fólki með lestrarörðugleika. Lagt fram til kynningar.

8. Áherslur v. Fjárhagsáætlunar 2009
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps hefur lagt fram eftirfarandi aðgerðaáætlun til að bregðast við breytingum á umhverfi í efnahags-, atvinnu- og fjármálum:

Alvarleg staða á alþjóðlegum mörkuðum, fyrirsjáanlega minnkandi tekjur Kaldrananeshrepps vegna útsvars og minnkandi tekna frá Jöfnunarsjóði sem lækka vegna lægri tekna ríkissjóðs, aukinn rekstrarkostnaður og fleiri vísbendingar um þrengingar kalla á aðgerðaáætlun Kaldrananeshrepps við þessar aðstæður.

Sveitarstjórn Kaldranneshrepps tekur undir yfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 10. október sl. um að verja grunnþjónustuna. Einnig er tekið undir mikilvægi þess að endurskoða fjárhagsáætlanir og forgangsraða upp á nýtt.

Meginmarkmiðið er að ástunda ábyrga fjármálastjórn, tryggja grunnþjónustu og stöðugleika í rekstri.

Sveitarstjórn skal fylgjast með framgangi þessarar aðgerðaáætlunar, fylgjast reglulega með málum, hafa samráð og samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga, önnur sveitarfélög og ríkisvaldið til að
tryggja hagsmuni íbúa Kaldrananeshrepps í hvívetna við þessar sérstöku og erfiðu aðstæður. Sveitarstjórn mun fylgjast grannt með atvinnumálum í sveitarfélaginu og leitast við að tryggja gott atvinnustig í Kaldrananeshreppi.

Þrengri fjárhagsstöðu verður að svo stöddu ekki mætt með hækkunum á gjaldskrám fyrir grunnþjónustu eða með skerðingu á slíkri þjónustu.
Gæta skal þess að hækkanir á gjaldskrá þeirrar þjónustu sem ekki telst til grunnþjónustu eins og fyrir Hitaveitu Drangsness, Drangsneshafnar og sundlaugar verði eins litlar og mögulegt kann að verða.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 mun taka mið af versnandi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.
Engin breyting verður á álagningarhlutfalli útsvars, nú 13,03%, né fasteignagjalda. Þá verður afsláttur á fasteignagjöldum óbreyttur. Gert er ráð fyrir 15 – 20% lækkun tekna frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og að útsvarstekjur lækki ekki eða í mesta lagi um 3-5%. Ekki er gert ráð fyrir hækkun tekna af fasteignum.
Launaliðir hækka verulega frá síðasta ári vegna kjarsamninga og eiga enn eftir að hækka um 10– 15 % vegna væntanlegra kjarasamninga. Engin áform eru uppi um uppsagnir starfsfólks.
Helstu framkvæmdir næsta árs verða : Framkvæmdir sem voru á fjárhagsáætlun þessa árs en ekki komust í verk vegna ýmissa ástæðna þ.e slitlagslögn á Grundargötu og uppbygging Skarðsréttar. Þá eru það framkvæmdir við Drangsnesbryggju þ.e grjótvörn og viðgerð á þekju en þær framkvæmdir eru á samgönguáætlun 2009 og er grjótvörnin 90% styrkhæf en þekjan að 75%.
Sveitarsjóður hefur fjármagn til að mæta kostnaði við þessar framkvæmdir.
Þrátt fyrir erfiða efnahagsstöðu á Íslandi og fyrirsjáanlega tekjurýrnun hjá sveitarfélaginu telur sveitarstjórn Kaldrananeshrepps að ekki sé ástæða til örvæntingar. Sveitarsjóður stendur vel og hefur engin erlend lán.
Með samvinnu íbúa og sveitarstjórnar munum við vinna okkur út úr þessum tímabundnu erfiðleikum sem nú hafa riðið yfir landið.
9. Minnispunktar frá samráðsfundum SA, ASÍ og fleiri vegna fjármálakreppu.
Lagðir fram minnispunktar sem teknir hafa verið saman eftir samráðsfundi þessarar aðila. Lagt fram til kynningar.

10. Bréf frá KSÍ
Bréf frá KSÍ dags. 24. október lagt fram til kynningar.

11. Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.
Rekstraráætlun Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum fyrir árið 2009 lögð fram til kynningar ásamt fundargerðum stjórnar frá 1. júlí, 8. október og 22. október s.l
Rekstaráætlunin gerir ráð fyrir 14% hækkun á framlagi eigenda frá síðasta ári. Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps skilur þörf safnsins fyrir tekjuaukningu milli ára en telur að fjárhagslegt bolmagn sveitarfélaga almennt á starfssvæði þess leyfi því miður ekki neina hækkun.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt
Fundi slitið kl. 22.00