Sveitarstjórnarfundur 12. nóvember 2003

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman á 16. fundi kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

Oddviti setti fund kl. 20 og stýrði honum samkvæmt boðaðri dagskrá í 11 liðum .
Svohljóðandi:

1. Fundargerðir sveitarstjórnar frá 6.október s.l
2. Fundargerðir nefnda.
3. Bréf frá KF. Steingrímsfjarðar.
4. Bréf frá áhugamönnum um endurbyggingu hjalls í landi Gautshamars.
5. Erindi til Orkubús Vestfjarða um varaafl.
6. Bréf frá Strandagaldri ses.
7. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
8. Bréf frá Siglingastofnun
9. Bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um stefnu í menningarmálum.
10. Bréf frá verkefnisstjórn í átaki í sameiningarmálum sveitarfélaga.
11. Efni til kynningar:
a. Útsend bréf oddvita.
b. Ársreikningar Sorpsamlags Strandasýslu


Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Guðmundur B. Magnússon, Jenný Jensdóttir, Sunna Einarsdóttir , Óskar Torfason og Margrét Bjarnadóttir í byrjun fundar í forföllum Guðbrandur Sverrissonar.

Fundargerð ritar Jenný Jensdóttir á tölvu.

Leitað afbrigða frá boðaðri dagskrá.

Oddvit leitar afbrigða frá boðaðri dagskrá og óskar eftir að tekið verði á dagskrá fundarins sem 4. liður, bréf frá Póst- og fjarskiptastofnun dags. 4. nóvember 2003, og aðrir liðir á boðaðri dagskrá haldi sér með breyttri númeraröð.

Afbrigði samþykkt samhljóða.

Var þá gengið til dagskrár:

1. Fundargerð sveitarstjórnar frá 6. október s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá fundi þann 6. október s.l
Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.

2. Fundargerðir nefnda.
a. Fundargerð Fjallskilanefndar frá 30. ágúst 2003
Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust.
b. Fundargerð Hafnarnefndar frá 29. október 2003
Fundargerðin afgreidd athugasemdalaust en það málefni sem þar er fjallað um er tekið fyrir í næsta dagskrárlið þessa fundar.

Guðmundur B. Magnússon gerir eftirfarandi bókun:

Með vísan til álits Umboðsmanns Alþingis fyrr á þessu ári um vanhæfi undirritaðs, lýsi ég mig vanhæfan við afgreiðslu dagskrárliða 3 og 4 þar sem þau snerta bæði það fyrirtæki sem ég starfa hjá.

Óska ég því eftir að varaoddviti taki við stjórn fundarins við afgreiðslu þessara mála.

Fundurinn samþykkir vanhæfi oddvita og við fundarstjórn tekur varaoddviti Jenný Jensdóttir. Áður en Guðmundur B Magnússon víkur af fundi gerir hann grein fyrir aðkomu sinni að málinu í stuttu máli.

3. Bréf frá Kf.Steingrímsfjarðar.
Í bréfi dags. 23.10.2003 sækir Kf.Steingrímsfjarðar um, fyrir hönd Olíufélagsins ehf., leyfi til að setja upp kortasjálfsala fyrir gasolíu og bensín við verslum Kf. Steingrímsfjarðar á Drangsnesi og einnig um leyfi til að setja upp lykladælu til gasolíusölu við höfnina í Kokkálsvík.

Óskar Torfason stjórnarformaður Kf. Steingrímsfjarðar lýsti sig vanhæfan.
Funduinn samþykkir vanhæfi Óskars og víkur hann af fundi. Í stað Óskars tekur sæti 2. varamaður Guðjón Vilhjálmsson.


Að teknu tilliti til bréfs Skeljungs hf. dagsett 5 . september s.l sem kynnt var á fundi sveitarstjórnar þann 6. október s.l þar sem þeir tilkynna til Kaldrananeshrepps að þeir hyggist fjarlægja bensínafgreiðslubúnað sinn á Drangsnesi og með vísan til afgreiðslu Hafnarnefndar Kaldrananeshrepps frá 29. október s.l fagnar sveitarstjórn því að Olíufélagið ehf skuli vera reiðubúið til að setja upp bensíndælu við verslun Kf. Steingrímsfjarðar á Drangsnesi en útlit var fyrir algjört ófremdarástand í þessum málum.

Í tilefni af umræðum og bréfaskriftum sem átt hafa sér stað er rétt að það komi fram að Skeljungur hf. hefur aldrei fengið formlegt leyfi til uppsetningar lykladælu til olíuafgreiðslu í Kokkálsvíkurhöfn. Eins er lóðarsamningur þeirra á hafnarsvæðinu á Drangsnesi löngu útrunninn og þrátt fyrir ábendingar þar um hafa þeir ekki sýnt neinn áhuga á að endurnýja hann.

Varaoddviti Jenný Jensdóttir ber fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leiti að veita Kf. Steingrímsfjarðar leyfi til að setja upp kortasjálfsala fyrir gasolíu og bensín við verslun þeirra á Drangsnesi og lykladælu til gasolíusölu við höfnina í Kokkálsvík en bendir jafnframt á að um þessi mál gilda lög og reglugerðir um skipulags- og byggingarmál og brunavarnir og brunamál svo og ákvæði í mengunarvarnareglugerð.
Tillagan samþykkt samhljóða.
4. Bréf frá Póst- og fjarskiptastofnun.
Sunna Einarsdóttir lýsti sig vanhæfa þar sem hún er starfsmaður Íslandspóst og eigandi húsnæðis sem Íslandspóstur er í nú.
Sveitarstjórn samþykkir vanhæfi Sunnu Einarsdóttur og víkur hún af fundi.
Póst-og fjarskiptastofnun óskar eftir afstöðu sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps til áætlana Íslandspósts að breyta rekstrarfyrirkomulagi afgreiðslustaðar á Drangsnesi með því að flytja afgreiðsluna í kaupfélag Steingrímsfjarðar, Borgargötu 2 Drangsnesi.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps leggst ekki gegn fyrirhuguðum breytingum á rekstrarfyrirkomulagi Íslandspósts á Drangsnesi svo fremi að þjónusta við íbúana skerðist ekki frá því sem nú er og ekki fækki störfum í sveitarfélaginu.

Guðjón Vilhjálmsson víkur af fundi og Guðmundur, Óskar og Sunna koma aftur til fundarstarfa.

Guðmundur B. Magnússon tekur við stjórn fundarins.

5. Bréf frá áhugamönnum um endurbyggingu hjalls í landi Gautshamars.
Í landi Gautshamars er gamall hákarlahjallur talinn frá átjándu öld eða jafnvel eldri, sem nú er að hruni kominn. Nokkrir áhugamenn hafa bundist samtökum um að koma honum í upprunalegt horf. Hugmyndiin er að ljúka verkinu og endurvígja hjallinn á næsta sumri í tengslum við Bryggjuhátíð á Drangsnesi.
Óska þeir eftir styrk til verksins frá Kaldrananeshreppi.

Guðbrandur Sverrisson mætir til fundar kl. 21.00 og Margrét Bjarnadóttir víkur af fundi.
Óskar Torfason kom með tillögu um að sveitarstjórn Kaldrananeshrepps gefi loforð fyrir 200.000.- krónum . Þetta loforð er háð því að af þessum áformum verði.
Tillagan samþykkt samhljóða.

6. Erindi til Orkubús Vestfjarða:
Á fundi Orkubús Vestfjarða með sveitarstjórnarmönnum í Strandasýslu sem haldinn var á Hólmavík þann. 11. september s.l kom m.a fram að áætlað er að leggja af rekstur varaaflsstöðvar á Drangsnesi með þeim hætti að núverandi vél yrði ekki endurnýjuð.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsir þungum áhyggjum vegna þessarar ákvörðunar og beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnar og framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða að fallið verði frá þessum fyrirætlunum.

Oddvita falið að skrifa stjórn og framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða og kynna þessa bókun sveitarstjórnar.

7. Bréf frá Strandagaldri ses:
Magnús Rafnsson stjórnarformaður Strandagaldurs ses. skrifar sveitarstjórn vegna lóðar undir “Kotbýli kuklarans” á Klúku. Einnig varðandi deiliskipulag á Klúku og vegna viðhalds Gvendarlaugar hins góða.
Drög að leigusamningi liggur fyrir fundi. Lóð sú sem umræðir er 10.000 fm og er samningurinn til 20 ára án endurgjalds. Sveitarstjórn samþykkir þessi drög að leigusamningi.
Sveitarstjórn samþykkir að láta vinna deiliskipulag á jörðinni Klúku.
Varðandi ábendingar um viðhald á sundlaugarmannvirkjum er því vísað til næstu fjárhagsáætlunar.

8. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga:
Jöfnunarsjóður vekur athygli sveitarstjórna á að umsóknarfrestur um framlög til stofnframkvæmda á árinu hjá sveitarfélögum sem hafa færri en 2000 íbúa er framlengdur til 17. nóvember nk. Einnig minnir jöfnunarsjóðurinn á að samkvæmt reglugerð nr. 113/2003 munu stofnframlög falla niður frá og með 1. janúar 2005.
Samþykkt að sækja um stofnframlag til sundlaugarbyggingar á Drangsnesi. Jenný Jensdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.

9. Bréf frá Siglingastofnun:
Bréf frá Siglingastofnun þar sem kynntur er umsóknarfrestur vegna framlaga til hafnarframkvæmda skv samgönguáætlun 2005-2008 og vakin athygli á nauðsyn þess að staðfesta verkefni sem eru inni á samþykktri samgönguáætlun 2005 til 2006.
Vísað til hafnarstjórnar til afgreiðslu.

10. Bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um stefnu í menningarmálum.
Með bréfi þessu er sveitarfélögum kynntar lokatillögur vinnuhóps sem unnið hefur að stefnumótun í menningarmálum á Vestfjörðum. Fer Fjórðungssamband Vestfirðinga þess á leit við sveitarfélög að þau fjalli um þessar tillögur og sendi síðan svar eða ályktun um málin.
Sveitarstjórn samþykkir framlagðar lokatillögur vinnuhóps sem unnið hefur að stefnumótun í menningarmálum á vestfjörðum.

11. Bréf frá verkefnisstjórn í átaki í sameinigarmálum sveitarfélaga.
Félagsmálaráðherra hefur skipað verkefnisstjórn átaks í sameiningarmálum sveitarfélaga. Lagt fram til kynningar.

12. Efni til kynningar:
a. Útsend bréf oddvita.
b. Ársreikningur Sorpsamlags Strandasýslu.


Þar sem dagskrá fundarins var tæmd var fundargerð sem rituð hafði verið á tölvu og er á bls. 40 - 43 lesin upp og samþykkt og fundi slitið kl. 23.55