Sveitarstjórnarfundur 13. nóvember 2002

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 5. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

Oddviti Guðmundur B. Magnússon setti fund kl. 20 og stýrði honum samkvæmt boðaðri dagskrá í 7 liðum. Svohljóðandi:

1. Fundargerð sveitarstjórnar frá 8. október s.l
2. Fundargerðir nefnda
3. Bréf frá Guðjóni Vilhjálmssyni.
4. Hlutabréfakaup í Eignarhaldsfélaginu Glámu ehf.
5. Umsögn um frumvarp til sveitarstjórnarlaga.
6. Aðalfundur Sorpsamlags Strandasýslu.
7. Til kynningar:

a. Yfirlitsskýrsla um sjóvarnir.
b. Bréf frá skipulagsstofnun.
c. Úthlutun tekjujöfnunarframlaga 2002
d. Fundargerðir ATVEST
e. Fundargerð Heilbrigðisnefndar vestfjarða
f. Fundargerð stjórnar SÍS nr. 697
g. Fundargerð Launanefndar sveitarfél. Nr. 182.
h. Fundargerð Samstarfsnefndar LS og KÍ nr 50.


Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Guðmundur B. Magnússon ,Jenný Jensdóttir, Sunna Einarsdóttir, Guðbrandur Sverrisson og Óskar Torfason.

Fundargerð ritar Jenný Jensdóttir.

Var þá gengið til dagskrár:

1. Fundargerð sveitarstjórnar frá 8. okt. s.l
Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

2. Fundargerðir nefnda:
Engar fundargerðir nefnda lágu fyrir fundinum.

3. Bréf frá Guðjóni Vilhjálmssyni.
Guðjón Vilhjálmsson skrifar sveitarstjórn bréf dags: 8.11.2002
Er hann ósáttur við þá skiptingu byggðakvótans milli fyrirtækjanna á staðnum sem verið hefur undarfarin ár og gerir hann fyrirvara við þá ákvörðun sveitarstjórnar að mæla með því við Byggðastofnun að úthluta byggðakvótanum með þeim hætti. Hefur hann kært til umboðsmanns Alþingis þá málsmeðferð sem hann hefur fengið við þeirri kröfu að skipting byggðakvótans milli fyrirtækjanna verði endurskoðuð.
Sveitarstjórn fjallaði um málið og samþykkir eftirfarandi bókun um .

“Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps er ekki full ljóst hvaða gildi slíkur fyrirvari bréfritara hefur varðandi úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu á yfirstandandi kvótaári, en ákvörðun sveitarstjórnar stendur óbreytt. Sveitarstjórnin telur þó að undirritun samkomulags sem árlega er gert um skiptingu byggðakvóta, feli í sér endanlega sátt við þá úthlutun, ella væri undirritunin gagnslaus. Að því gefnu að Guðjón Vilhjálmsson undirriti ekki samkomulagið nema með fyrirvara virðist ekki hægt að ganga frá úthlutun byggðakvótans fyrr en niðurstaða er fengin í kæru hans til Umboðsmanns Alþingis.”

Oddvita falið að svara bréfi Guðjóns Vilhjálmsonar og kynna honum bókun sveitarstjórnar.

3. Hlutafjárkaup í Eignarhaldsfélaginu Glámu ehf:
Guðmundur Magnússon oddviti og Óskar Torfason lýstu sig vanhæfa og véku af fundi.
Varaoddviti Jenný Jensdóttir tók við fundarstjórn og bar upp eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir að leggja fram hlutafé í Eignarhaldsfélagið Glámu ehf. kr. 20.500.000,-, en með því m.a. er tryggt að Eignarhaldsfélagið Gláma ehf. leggi fram hlutafé í Útgerðarfélagið Skúla ehf. á Drangsnesi alls kr. 55.000.000,-
Jafnframt samþykkir sveitarstjórnin að leggja fram kr. 100.000,- í hlutafé í Útgerðarfélagið Skúla ehf.

Þessi tillaga er m.a. byggð á samþykkt sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps frá 28. apríl 2002, þar sem ákveðið var að legga fram hlutafé til slíkra hluta allt að kr.20.000.000,-. Tilgangur þessa er eins og áður hefur komið fram að efla útgerð í sveitarfélaginu með því að kaupa veiðiheimildir og eftir atvikum gera út eða leigja aflaheimildir, útgerð og fiskvinnslu í sveitarfélaginu til framdráttar. Til þess að vinna að framangreindum markmiðum er þessa dagana unnið að stofnun Útgerðarfélagsins Skúla ehf. og gert hefur verið tilboð í bát með veiðiheimildum fyrir kr. 80.000.000,-

Tillagan samþykkt samhljóða.

Oddviti tekur nú aftur við fundarstjórn.

4. Umsögn um frumvarp til sveitarstjórnarlaga:
Til umsagnar er frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998
Sveitarstjórn er sátt við framkomið frumvarp og sér ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það.

5. Fundargerð Aðalfundar Sorpsamlags Strandasýslu frá 17.okt.s.l
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6. Lagt fram til kynningar:
a. Yfirlitsskýrsla um sjóvarnir.
b. Bréf frá skipulagsstofnun.
c. Úthlutun tekjujöfnunarframlaga 2002
d. Fundargerðir ATVEST
e. Fundargerð Heilbrigðisnefndar vestfjarða
f. Fundargerð stjórnar SÍS nr. 697
g. Fundargerð Launanefndar sveitarfél. Nr. 182.
h. Fundargerð Samstarfsnefndar LS og KÍ nr 50.

Fleira ekki tekið fyrir

Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 22.25