Byggðasagan Strandir

Úrdráttur úr fundargerð Hreppsnefndar Kaldrananeshrepps þann 15. nóvember 2012

Matthías Lýðsson fyrir hönd Búnaðarsambands Strandamanna óskar eftir því í bréfi dags 5. nóvember s.l að sveitarfélög í Strandasýslu og nú einnig Húnaþing Vestra f.h fyrrum Bæjarhrepps taki að sér verkið Byggðasagan Strandir og þar með uppgjör skulda og áframhald söguritunar.

Byggðasagan Strandir hefur verið í ritun frá árinu 1980 og árið 1985 kom út bókin Strandir 2, félagasaga sýslunnar undir ritstjórn Lýðs Björnssonar. Árið 1996 tók Jón Jónsson frá Steinadal við umsjón með sögurituninni. Síðustu ár hefur lítið gerst vegna þess að engir fjármunir hafa fengist til að greiða fyrir nauðsynlega vinnu.

Það var tap á útgáfu bókarinnar Strandir 2 og eftir að hún kom út fengu ritstjórar greitt fyrir vinnuframlag en um og eftir árið 2000 hafa útgreiðslur nær engar verið. Innkoma hefur og verið sáralítil og hefur gengið að mestu upp í skuldir. Með vöxtum og vaxtavöxtum eru skuldir vegna byggðasögunnar nú yfir fimmtíu milljónir króna.

Búnaðarsamband Strandamanna og Sparisjóður Strandamanna hafa náð samkomulagi um að skuldir verði gerðar upp þannig: strax verði greiddar 10 milljónir, aðrar 10 milljónir fari á vaxtalaust biðlán. Komi bókin út innan 3ja ára veitir Sparisjóður Strandamanna styrk að upphæð 5 milljónir sem dregst þá frá biðláninu. Aðrar núverandi skuldir við Sparisjóðinn verða felldar niður.

Þær skuldir sem óskað er eftir að sveitarfélögin taki að sér að greiða eru þessar 10 milljónir sem eiga að greiðast strax. Og að auki allur kostnaður sem til fellur við að koma bókinni í prentun og sölu.

Sveitarstjórn tekur jákvætt í verkefnið, en frestar ákvarðanatöku þar til síðar. Oddvita falið að ræða við Magnús Rafnsson á Bakka um ritun sögu Klúkuskóla.

Byggðasagan Strandir:
Úrdráttur úr fundargerð hreppsnefndar Kaldrananeshrepps þann 7. mars 2013

Vísað er til afgreiðslu sveitarstjórnar á fundi hennar þann 15. nóvember 2012

Fyrir liggur tillaga að skuldauppgjöri á þeim 20 milljónum sem eftir standa af skuld Búnaðarsambandsins við Sparisjóð Strandamanna vegna Byggðasögu Stranda. Kostnaði sveitarfélganna verði skipt hlutfallslega eftir íbúatölu.

10 milljónir greiðist strax. Búnaðarsambandið greiðir 3 milljónir og 7 milljónir skiptist milli Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Húnaþings vestra v. Bæjarhrepps. Þær 10 milljónir sem eftir standa verða settar á 4 skuldabréf sem skiptast eftir íbúatölu milli sveitarfélaganna. Á móti hverju skuldabréfi gefur Sparisjóður Strandamanna út yfirlýsingu um að helmingur upprunalegs höfuðstóls verði felldur niður komi bókin út innan 3ja ára.

Jenný Jensdóttir lýsir sig vanhæfa að fjalla um málið og víkur af fundi vegna stjórnarsetu í Sparisjóði Strandamanna og tekur Guðbrandur Sverrisson varaoddviti við stjórn fundarins.

 

Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps telur samkomulag um aðkomu sveitarfélaga í Strandasýslu að ritun og útgáfu Byggðasögunnar Strandir einu færu leiðina til að alt það efni sem safnað hefur verið, og þegar er til, glatist ekki og unnt verði að ljúka verkinu á sem skjótastann og ódýrastann hátt.

Sveitarstjórnin telur nauðsynlegt, áður en tekin er afstaða til yfirtöku á skuldum Byggðasögunnar Strandir við Sparisjóðinn, að kosin verði ritnefnd sem ráði ritstjóra sér til aðstoðar og fari yfir þau gögn sem til eru og geri kostnaðar og tíma áætlun fyrir þá vinnu sem eftir er til að koma bókunum út, og leggi síðan fyrir sveitastjórninar, þannig að ljóst sé hve mikill kostnaður komi til með að falla á sveitarfélögin. Að því loknu ákveði sveitarfélögin framhaldið.

Mikilvægt er að öllum gögnum sem tilheyra byggðasögunni verði skilað, þar á meðal skólasögunum ( Heydalsárskólans Drangsnesskóla og Finnbogastaðarskóla).

Jenný Jensdóttir kemur aftur inn á fundinn.