Starfsmaður óskast í félagslega heimaþjónustu í Kaldrananeshreppi

Helstu verkefni eru aðstoð við heimilishald og félagslegum stuðningi.
Laun eru samkvæmt taxta Verkalýðsfélags Vestfirðinga (Verk-Vest). 

Umsóknum skal senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Allar nánari upplýsingar og svör við fyrirspurnum veitir Soffía Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík í síma 451-3510 

 

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Auglýsing um niðurstöðu sveitarstjórnar skv. 2.mgr. 36.gr skipulagslaga nr. 123/2010

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkti á fundi sínum sem haldinn var þann 12. apríl 2022, óverulega breytingu á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010 - 2030.
Breytingin tekur til breyttrar landnotkunar í landi Ásmundarness, landnúmer 141738.

Ástæða breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins kemur til útaf nýju deiliskipulagi á bújörð við fjarðarbotn í Bjarnarfirði, milli Hallardalsár og Deildarár þar sem gert er ráð fyrir frístundabyggð (FS11) og Iðnaðarsvæði (I11) á svæðinu.

Það er niðurstaða Sveitastjórnar Kaldrananeshrepps að um óverulega breytingu aðalskipulags sé að ræða og er breytingin auglýst í samræmi við 2. mgr. 36 gr. skipulagslaga nr.123/2010.

Hægt er að skoða ofangreinda aðalskipulagsbreytingu á vefsíðu Skipulagsstofnunnar (í þessum hlekk): www.tinyurl.com/asmundarnes

Sveitarstjórnarfundur var haldinn 13. nóvember 2022

Sunnudaginn 13. nóvember 2022 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 6. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.
Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Ísabella Benediktsdóttir, Hildur Aradóttir, Franklín B. Ævarsson og Sunna Einarsdóttir.

Oddviti setti fund kl. 20:00.
Hildur Aradóttir ritar fundargerð á tölvu.
Oddviti leitar afbrigða og tekur fyrir kauptilboð í Aðalbraut 8.

Dagskrá 6. fundar:

  1. Fundargerð 5. sveitarstjórnarfundar 19.10.2022
  2. Fundargerðir nefnda
  3. Aðrir fundir
  4. Deiliskipulagsbreyting Ásmundarness
  5. Framkvæmdir 2023
  6. Hitaveita í Bjarnarfirði
  7. Tilboð Ásgarðs upp á sérfræðiþjónustu við framkvæmd skólastarfs
  8. Umsókn um byggingarleyfi
  9. Beiðni um þátttöku sveitarfélaga við þróun aðlögunaraðgerða vegna loftlagsbreytinga
  10. Beiðni Strandapóstsins
  11. Styrktarbeiðni Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð
  12. Kauptilboð í Aðalbraut 8

Fundargerð:

  1. Fundargerð 5. sveitarstjórnarfundar 19.10.2022.
    Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.
    Fundargerð lögð fram til kynningar.

  2. Fundargerðir nefnda
    Engar fundargerðir lágu fyrir.

  3. Aðrir fundir
    1. Samband íslenskra sveitarfélaga, 914. fundur stjórnar, 12.10.2022.
      Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
    2. Stjórnarfundur Sorpsamlags Strandasýslu, 24.10.2022.
      Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.

  4. Deiliskipulagsbreyting Ásmundarness
    Kaldrananeshreppi barst bréf frá Skipulagsstofnun varðandi deiliskipulagsbreytingu Ásmundarness í Bjarnarfirði. Skipulagsstofnun fer yfir nokkra punkta sem huga þarf að áður en sveitarstjórn getur birt auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins.

    Bréf frá Skipulagsstofnun lagt fram.
    Sveitarstjórn hefur borist lagfært deiliskipulag og sveitarstjórn staðfestir breytingar á deiliskipulagi og felur Skipulagsfulltrúa að senda samþykkt deiliskipulag til Skipulagsstofnunnar og birta auglýsingu um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda.
    Borið upp og samþykkt.

  5. Framkvæmdir 2023
    Sveitarstjórn ræðir þær framkvæmdir sem huga þarf að á árinu 2023.

    Þær framkvæmdir sem ræddar voru:
    - Ný borhola Hitaveitu Drangsness
    - Viðhald Grunnskólans á Drangsnesi
    - Viðhald Gvendarlaugar hins góða
    - Viðhald Sundlaugarinnar á Drangsnesi
    - Viðhald við heitu pottana á Drangsnesi
    - Nýbyggingar fasteigna í hreppnum
    - Nýbygging Björgunarmiðstöðvar
    - Framkvæmdir vegna viðhalds á höfnum
    - Innviði sumarbústaðahverfis Klúku
    - Opnun leikskólans Krakkaborgar og rekstur

    Framkvæmdir ræddar og vísað til vinnu vegna fjárhagsáætlunar 2023.
    Borið upp og samþykkt.

  6. Hitaveita í Bjarnarfirði
    Á 5. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 19. október sl. var samþykkt að taka tilboðum frá Ísrör ehf. í kaldavatns- og heitavatnsrör sem part af veitukerfi Klúkulóða í Bjarnarfirði.

    Sveitarstjórn vill kanna áhuga fasteignareigenda í Bjarnarfirði hvort vilji sé að fá hitaveitu í fasteignir sínar frá borholu í Klúku.

    Hitaveita í Bjarnarfirði lögð fram til kynningar.
    Þjónustufulltrúa falið að senda umræddum fasteignareigendum í Bjarnarfirði bréf þess efnis.
    Borið upp og samþykkt samhljóða.

  7. Tilboð Ásgarðs upp á sérfræðiþjónustu við framkvæmd skólastarfs
    Ásgarður býður upp á sérfræðiþjónustu við framkvæmd skólastarfs í grunnskólum þar sem meginviðfangsefnið og yfirskrift er gjarnan að framkvæma þá stefnu stjórnvalda sem birtist í aðalnámskrá grunnskóla.

    Í samkomulagi Ásgarð og Kaldrananeshrepps væri unnið eftir þeim áherslum að sýn og stefna sveitarfélagsins sé skýr, Fræðslunefnd fái stuðning við að styðja við skólamál, að fjármagns sé vel nýtt og að skólastarf uppfylli skilyrði skólastefnu sveitarfélagsins.

    Tilboð lagt fram til kynningar.
    Sveitarstjórn ákveður að fá fund með skólastjóra Grunnskóla Drangsness til að ræða fræðslumál sveitarfélagsins.
    Þjónustufulltrúa falið að finna fundartíma sem hentar og boða til fundar ásamt fræðslunefnd.
    Borið upp og samþykkt samhljóða.

  8. Umsókn um byggingarleyfi
    Óskað er eftir byggingarleyfi í landi Hellu fyrir íbúðar og geymsluhúsnæði.

    Sveitarstjórn tekur vel í beiðnina.
    Sveitarstjórn vísar beiðni til Byggingar-, skipulags- og umhverfisnefndar ásamt byggingarfulltrúa.
    Borið upp og samþykkt samhljóða.

  9. Beiðni um þátttöku sveitarfélaga við þróun aðlögunaraðgerða vegna loftlagsbreytinga
    Sérstök aðgerð hefur verið skilgreind í núgildandi Byggðaáætlun 2022-2023 og snýr hún að því að móta heildstæða nálgun íslenskra sveitarfélaga að aðlögun að loftlagsbreytingum. Aðgerðin er á ábyrgð Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins og er framkvæmd í samstarfi við Byggðastofnun, Skipulagsstofnun, Skrifstofu loftlagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands.

    Á grundvelli aðgerðarinnar er óskað eftir þátttöku nokkurra sveitarfélaga við að móta aðferðarfræði fyrir sveitarfélög til þess að bregðast við afleiðingum loftlagsbreytinga.

    Beiðni lögð fyrir.
    Sveitarstjórn ákveður að taka ekki þátt í verkefninu að svo stöddu.
    Borið upp og samþykkt samhljóða.

  10. Beiðni Strandapóstsins
    Hreppnum barst fyrirspurn frá ritnefnd Strandapóstsins þar sem athugað er hvort áhugi værir fyrir því að kaupa heilsíðuauglýsingu í Strandapóstinum, sem kemur út í vor. Heilsíða kostar 26.000 kr.-

    Beiðni lögð fyrir.
    Sveitarstjórn ákveður að taka tilboðinu og felur Kristínu Einarsdóttur að sjá um auglýsinguna sem segir frá þjónustu í sveitarfélaginu.

  11. Styrktarbeiðni Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð
    Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð sendir hreppnum styrktarbeiðni og vill kanna áhuga sveitarfélagsins hvort það sjá sér fært um að styðja við útgáfu Ljósablaðsins 2022. 

    Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Hægt er að velja um þrjá styrki en þeir eru vefborði með hlekk að upphæð 50.000kr.-, merki fyrirtækisins að upphæð 25.000kr.- og kveðja með hlekk að upphæð 10.000kr.-

    Styrktarbeiðni lögð fyrir.
    Sveitarstjórn ákveður að samþykkja ekki styrktarbeiðni Ljóssins.
    Borið upp og samþykkt.

  12. Kauptilboð í Aðalbraut 8
    Kaldrananeshreppi barst kauptilboð í Aðalbraut 8 á Drangsnesi. Tilboðið hljóðar upp á 7.000.000kr.-

    Kauptilboð lagt fram til kynningar.
    Sveitarstjórn ákveður að taka tilboðinu ekki að svo stöddu og ætlar að skoða áhrif þess ef eignin yrði seld upp á áform um leikskólarekstur.
    Borið upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið klukkan 21:30

Álagningarseðlar fasteignagjalda

Kaldrananeshreppur fékk fyrirspurn varðandi birtingar á Álagningarseðlum fasteignagjalda en seðlarnir eru ekki lengur sendir út með bréfi og birtast nú á vefsíðunni Island.is. Allt fyrir umhverfið! 

Hvernig nálgast ég Álagningarseðilinn minn? 

  1. Ferð inná www.island.is
  2. Skráir þig inn á "mínar síður"
  3. Smellir á "Pósthólf - er bréf til þín?"
  4. Þar er smellt á "Álagningarseðill fasteignagjalda 2022" sem er að finna þar í listanum.
  5. Þar er hægt að hlaða álagningarseðli niður sem pdf eða prenta hann út.

 

Ef einhver vandamál koma upp er hægt að leita til skrifstofu Kaldrananeshrepps og senda tölvupóst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Sveitarstjórnarfundur var haldinn 19. október 2022

Miðvikudaginn 19. október 2022 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 5. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.
Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Halldór Logi Friðgeirsson Hildur Aradóttir, Arnlín Óladóttir og Franklín B. Ævarsson.

Oddviti setti fund kl. 20:00.
Hildur Aradóttir ritar fundargerð á tölvu.

Dagskrá 5. fundar:

  1. Fundargerð 4. sveitarstjórnarfundar 19.09.2022.
  2. Fundargerðir nefnda
  3. Aðrir fundir
  4. Umsögn Skipulagsstofnunnar varðandi beiðni um undanþágu
    frá ákvæði reglugerðar nr. 5.3.2.5.
  5. Veita Klúkulóða
  6. Umsókn um stöðuleyfi
  7. Skipan áheyrnafulltrúa í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga
  8. Eftirlitsskýrsla frá heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
  9. Tilboð Sekretum varðandi stjórntæki persónuverndar
  10. Tilboð um upplýsingamiðlun frá Sýslið verkstöð ehf.
  11. Beiðni Sjálfsbjargar
  12. Beiðni Landssambands lögreglumanna
  13. Áskorun frá Félagi atvinnurekenda, Húseigendafélaginu og Landssambandi eldri borgara
  14. Beiðni Kvennaathvarfsins
  15. Bréf frá Skógræktarfélagi Íslands

 

Fundargerð:

  1. Fundargerð 4. sveitarstjórnarfundar 19.09.2022.
    Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.
    Fundargerð lögð fram til kynningar.

  2. Fundargerðir nefnda
    1. Fundur Fræðslunefndar 17.10.2022.
      Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
      Sveitarstjórn bókar í samræmi við vilja Fræðslunefndar í lið þrjú, að það er stefna sveitarstjórnar að hefja aftur rekstur leikskóla á Drangsnesi í ágúst 2023.
      Borið upp og samþykkt samhljóða.

  3. Aðrir fundir
    1. Fundargerð 20. Samráðsfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 20.09.2022.
      Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir
    2. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, 140. fundur heilbrigðisnefndar, 29.09.2022.
      Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
    3. Aðalfundur Félagsþjónustu Stranda- og Reykhólahrepps, 15.09.2022
      Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
    4. Samband íslenskra sveitarfélaga, 913. fundur stjórnar, 28.09.2022.
      Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.

  4. Umsögn Skipulagsstofnunnar varðandi beiðni um undanþágu frá ákvæði reglugerðar nr. 5.3.2.5.
    Kaldrananeshreppi barst umsögn Skipulagsstofnunnar varðandi beiðni um undanþágu frá ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 5.3.2.5. vegna fjarlægar frá vegi í landi Ásmundarness.

    Þjónustufulltrúi sendi Innviðaráðuneytinu bréf þann 29. september sl. um beiðni um undanþágu frá gr. 5.3.2.5., lið d. í skipulagsreglugerð nr.90/2013 um fjarlægð bygginga frá stofn- og tengivegum og óskaði ráðuneytið eftir umsögn Skipulagsstofnunnar.

    Rök hreppsins eru að náttúrulegar aðstæður gera það að verkum að ekki er unnt að uppfylla fjarlægðarkröfu skipulagsreglugerðar frá stofn- og tengivegum og að í ljósi þess að Vegagerð gerir ekki athugasemd við deiliskipulag Ásmundarness.

    Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemd að undanþága verði veitt vegna fjarlægðar.

    Umsögn lögð fram til kynningar.

  5. Veita Klúkulóða
    Oddviti gerir grein fyrir tilboðum í kaldavatns- og heitavatnsrör sem part af veitukerfi Klúkulóða í Bjarnarfirði. Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboðum frá Ísrör ehf. að upphæð 4.400.439kr.- með vsk.
    Sveitarstjórn ákveður að setja á fjárhagsáætlun 2023 framkvæmdir vegna innviða á Klúkulóðum.

    Veita Klúkulóða lögð fram til kynningar.
    Oddvita falið að bregðast við.
    Borið upp og samþykkt samhljóða.

  6. Umsókn um stöðuleyfi
    Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir 20 feta gám við Aðalbraut 8 á Drangsnesi.

    Sveitarstjórn tekur vel í beiðnina en með skilyrðum.
    Sveitarstjórn vísar beiðni til Byggingar-, skipulags- og umhverfisnefndar.

  7. Skipan áheyrnafulltrúa í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga
    Á fundi stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga þann 26. september sl. var lögð fram til kynningar staðfest þinggerð 67. Fjórðungsþings Vestfirðinga að hausti. Á þinginu var kjörin ný stjórn og varastjórn Fjórðungssambandsins til næstu tveggja ára.

    Stjórn Fjórðungssambandsins fól sviðsstjóra að bjóða sveitarstjórnum sem ekki eiga fulltrúa í stjórn sambandsins að tilnefna áheyrnafulltrúa á fundum stjórnar og aðgengi að gögnum stjórnarfunda.

    Sveitarstjórn tilnefnir oddvita hreppsins sem áheyrnafulltrúa Kaldrananeshrepps í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga.
    Borið upp og samþykkt.

  8. Eftirlitsskýrsla frá heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
    Eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða lögð fram til kynningar og umræðu þar sem við á.

    Eftirlitsskýrsla greinir frá því að skoðuð var aðstaða á tjaldsvæði Drangsness og leiktæki þann 18. júlí síðastliðinn. Losunarstaður er fyrir ferðasalerni en laga þarf undirlag og vökvaheldni.

    Skýrsla lögð fram til kynningar.

  9. Tilboð Sekretum varðandi stjórntæki persónuverndar
    Sekretum sendi Kaldrananeshreppi tilboð varðandi stjórntæki persónuverndar en fyrirtækið hefur veitt fjölda fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga ráðgjöf varðandi persónuverndarmál. Sekretum sinnir einnig hlutverki persónuverndarfulltrúa víða á landinu.

    Sekretum vill því bjóða hreppnum aðgang að nýju kerfi til að stjórna persónuverndarmálum sveitarfélagsins. Með því að nota kerfið losnar sveitarfélagið t.d. við að notast við vinnsluskrá og áhættumat í Excel og öll gögn sem viðkoma persónuvernd eru á einum stað.

    Grunnáskrift að kerfinu ásamt persónuverndarfulltrúa kostar 9.450kr.- (með vsk.) á mánuði en ef greitt er fyrir árið er gjaldið 89.400kr.- (með vsk.) eða 7.450kr.- á mánuði.

    Tilboð lagt fram til kynningar.
    Sveitarstjórn ákveður að hafna tilboðinu að svo stöddu og ætlar að taka málið til frekari athugunar.
    Borið upp og samþykkt.

  10. Tilboð um upplýsingamiðlun frá Sýslið verkstöð ehf.
    Sýslið verkstöð býðst til þess að sjá um upplýsingamiðlun fyrir Kaldrananeshrepp 2022-2023 á vefsíðunni strandir.is á heilsársgrundvelli í gegnum vefsíðu sem og net- og símaþjónustu gegn mánaðarlegu gjaldi.

    Verkefnið er drifið áfram af vöntun um betra upplýsingaflæði fyrir Strandir og vilja Strandafólks til þess að hafa betra aðgengi að upplýsingum um svæðið, sem og vettvang til að sýna hvað Strandir hafa upp á að bjóða og hvað sé vel gert á svæðinu.

    Tilboð lagt fram til kynningar.
    Sveitarstjórn tekur vel í hugmyndina og felur oddvita að kanna aðra möguleika að þjónustuleiðum hjá Sýslið verkstöð ehf.
    Borið upp og samþykkt.

  11. Beiðni Sjálfsbjargar
    Kaldrananeshreppi barst beiðni frá Sjálfsbjörg um ,,lógó“ auglýsingu eða styrktarlínu frá hreppnum í Klifur, tímarit Sjálfsbjargar. Fjallað verður um aðgengisfulltrúa sveitarfélaganna, Römpum upp Ísland verkefnið og nýtt samtarf Sjálfsbjargar, ÖBÍ og Ferðamálastofu um gott aðgengi að ferðamannastöðum.

    ,,Lógó“ auglýsingin kostar 29.000kr.- og styrktarlínurnar 10.000kr.- Tímaritið verður gefið út í 3.000 eintökum, prentað á fallegan pappír og dreift til allra helstu hagsmunaaðila í málefnum hreyfihamlaðra á Íslandi.

    Beiðni lögð fram til kynningar.
    Sveitarstjórn ákveður að samþykkja ekki beiðni Sjálfsbjargar.
    Borið upp og samþykkt.

  12. Beiðni Landssambands lögreglumanna
    Hreppnum barst beiðni frá Landssambandi lögreglumanna en þau gefa út blaðið Lögreglumaðurinn þar sem fjallað er um málefni lögreglunnar, reynsluheim lögreglumanna, starfsumhverfi þeirra, kjarasamninga og ýmislegt fleira.
    Vonast er eftir því að hreppurinn taki þátttöku í Lögreglumanninum en hægt er að kaupa margskonar auglýsingar sem sýndar verða í blaðinu sem og kveðju til lögreglumanna.

    Beiðni lögð fyrir.
    Sveitarstjórn ákveður að verða ekki við beiðninni.
    Borið upp og samþykkt.

  13. Áskorun frá Félagi atvinnurekenda, Húseigendafélaginu og Landssambandi eldri borgara
    Félag atvinnurekanda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara skora á ríki og sveitarfélög að grípa til aðgerða til að hindra að gífurlegar verðhækkanir á fasteigamarkaði leiði til mikilla hækkana fasteignagjalda á eignir fólks og fyrirtækja.

    Fasteignamat ársins 2023 er 19,9% hærra en ársins 2022 en án aðgerða af hálfu sveitarfélaganna mun sú hækkun leiða til samsvarandi hækkunar fasteignaskatta og gjalda.

    Áskorun lögð fram til kynningar og rædd.

  14. Beiðni Kvennaathvarfsins
    Kaldrananeshreppi barst beiðni frá Kvennaathvarfinu sem er neyðarhvarf fyrir fjölbreyttan hóp kvenna sem opið er allan sólarhringinn. Vegna aukinnar aðsóknar og aukins framboðs á úrræðum hefur rekstrarkostnaður hækkað töluvert síðustu ár en árið 2021 hljóðaði kostnaðurinn upp á tæplegar 210 milljónir á meðan hann var tæpar 123 milljónir árið 2017.

    Því óskar Kvennaathvarfið eftir rekstrarstyrk fyrir árið að fjárhæð 200.000kr.-

    Beiðni lögð fram til kynningar.
    Sveitarstjórn ákveður að samþykkja ekki beiðni Kvennaathvarfsins.
    Borið upp og samþykkt.

  15. Bréf frá Skógræktarfélagi Íslands
    Stjórn Skógræktarfélags Íslands skorar á sveitarstjórnir landsins til þess að vinna að skipulagsáætlunum í takt við stefnu stjórnvalda um skógrækt á landsvísu. Sveitarfélög eru að auki hvött til að koma sér upp skilvirkum verkferlum og forðast óþarfa tafir og kostnað við afgreiðslu framkvæmdarleyfa vegna skógræktar.

    Bréf lagt fram til kynningar.


Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið klukkan 21:46