Danmerkurferð Ingu og Söndru!

ma-_jn_114

Eins og fram hefur komið hér á vefnum unnu Sandra Dögg Guðmundsdóttir og Inga Hermannsdóttir ferð til Kaupmannahafnar fyrir verkefni sitt, Grásleppusetur.

 

Óhætt er að segja að Danmörk hafi skartað sínu fegursta þessa daga sem ferðalag okkar stóð. Varla sást ský á himni og hitinn eftir því.

 

Flugferðin gekk ljómandi þó að sumum hafi þótt lendingin frekar harkaleg. Þegar út var komið ákváðu glaðar Íslenskar stúlkur að viturlegt væri að fara í stuttbuxurnar enda komnar til útlanda. Ekki sáu þær eftir því enda vel yfir 20 gráður og um að gera að láta sólina leika við sig. Þegar til miðborgarinnar var komið var farið í góðan göngutúr að Litlu Hafmeyjunni með stoppi m.a. í Amalienborgargarði. Að loknum göngutúr var farið í siglingu þar sem farið var fram hjá ,,Svarta demantinum” út að lítilli eyju og fleiri áhugaverðum stöðum. Báturinn kom svo að landi í Nýhöfn og þaðan var gengið upp íma-_jn_099 Sívalaturninn. Undirrituð, sem komin er sex mánuði á leið ákvað að taka sinn tíma í gönguna upp og settist í nokkrar gluggasyllur, á meðan aðrir nánast skokkuðu en það er bara gaman að því. Uppi á toppi Sívalaturnsins var ákveðið að finna pizzastað þar sem allir voru orðnir svangir. Úr varð að við settumst inn á mjög góðan stað þar sem komið var og sungið fyrir okkur ásamt því að við fengum þessar dýrindis Ítölsku pizzur. Næst var staðar numið á Aðaljárnbrautarstöðinni þar sem leið lá á náttstað. Það voru þreyttir ferðalangar sem lögðust til hvílu að kvöldi þriðjudags.

 

Í garðinum á náttstaðnum var skemmtilegt trampólín sem heillaði mjög. Hófu þær miðvikudaginn á því að taka nokkur hopp. Það var vel við hæfi að fara á sædýrasafn og þar sáu þær hvað hentar fyrir þeirra hús og hvað þarf að vera öðruvísi. Meðal þess sem var ákveðið var það að það þarf að vera almennileg lýsing á þessum söfnum svo allir sjái hvað um sé að ræða. Því næst var farið á ströndina og í sjóinn og þó svo að ekki allir væru klæddir fyrir baðferð þá var bara farið í stuttbuxunum og bolnum og svo gengið um til að þerra sig. Experimentarium var næst á dagskránni. Þar gátu stúlkurnar rannsakað nánast allt sem hugurinn girntist og höfðu afskaplega gaman af. Að þeirra mati einn af hápunktum ferðarinnar þvílík var skemmtunin inni á þessu safni. Þegar á náttstað var komið var trampólínið vinsæla mikið notað og höfðu allir mjög gaman af.

 

Mikil eftirvænting var eftir fimmtudeginum enda var á áætlun að eyða honum öllum í Tívolí og fyrir flesta er ferð í Tívolíið nauðsynlegur hluti ferðar til Kóngsins Köben og var mikillma-_jn_122 hugur í stúlkunum. Hvort sem tækið hét Fallturn, Rússíbani eða eitthvað annað, allt var þetta frábært og var tíminn nýttur til hins ýtrasta allt þar til tími kom að fara út á lestarstöð til að fara upp á flugvöll. Þeim fannst skemmtilegt að fá að ferðast með lestum enda höfum við ekki gert mikið af því í gegnum árin og því nýstárlegur ferðamáti. Þær hefðu þó viljað fá að prófa Hraðlestirnar sem fóru svo hratt á næstu teinum.

 

Heimferðin gekk svo eins og í sögu flestir voru mjög þreyttir og nýttu tímann í svefn sem var eins gott því þegar til Reykjavíkur var komið var komið að sögustund með Sóley og Bjarna  ömmu og afa Söndru. Enda frá  mörgu að segja þegar  komið er af erlendri grund.

 

                        Aðalbjörg Óskarsdóttir