Grásleppusetur
- Details
- Sunnudagur, 13 janúar 2008 12:30

Þann 10. janúar var haldinn á Malarkaffi Drangsnesi fundur áhugafólks um að koma á fót safni eða setri um grásleppuna. Var ágætlega mætt á fundinn. Jón Jónsson menningarmálafulltrúi Vestfjarða flutti fróðlegt erindi um hvernig standa skal að svona málum – hvernig þetta gengur allt fyrir sig. Fram kom einnig á fundinum áhugi á að tengja þessa félagsstofnun hákarlaverkun en talið er að upphaf hákarlaverkunar hafi verið í Asparvík í Kaldrananeshreppi.
Niðurstaða fundarins var sú að kjósa þrjá menn í undirbúningshóp sem vinna skal að þessu máli og skulu þeir koma með tillögur að gerð félagins þ.e hvort um verður að ræða sjálfseignastofnun, hlutafélag eða eitthvað annað félagsform fyrir stofnfund sem haldinn verður eins fljótt og hægt er. Einnig skulu þeir leggja fyrir þann fund drög að lögum fyrir félagið svo og stefnumörkun. Í þennan hóp voru valdir þeir Jón Hörður Elíasson, Ásbjörn Magnússon og Björn Guðjónsson.
